*

Hitt og þetta 27. apríl 2006

Nýherji sýndi viðskiptavinum sínum framtíðina

Nýherji blés til hátíðar í Hafnarhúsinu handa viðskiptavinum sínum á miðvikudaginn síðasta, með það fyrir augum að hægt væri að upplifa tölvutímabilið frá árinu 1982 til 2006 og sjá hve framfarirnar hafa verið örar. Að auki var hægt að skyggnast inn í framtíðina. Til veislunnar komu hátt í 500 manns, að sögn Þórðar Sverrissonar, forstjóra Nýherja.

160 fermetra tölvuver

Birtingarform framtíðarinnar var 160 fermetra tölvuver sem geymt er í tengivagni á trukki sem ferðast um Evrópu. Í tölvuverinu er mikið af öflugum tölvubúnaði, það öflugum að hann getur rekið tölvukerfi ýmissa stærri fyrirtækja hér á landi, að sögn Þórðar.

Í honum eru netþjónar, afritunarstöðvar og rafstöð. Trukkurinn var til sýnis víðsvegar um landið, svo sem á Akureyri og Selfossi. Þá var ferðalagi hans ekki lokið heldur er næsti viðkomu staður Ísrael.

Sambærilegir trukkar voru notaðir til þess að keyra tölvukerfi í flóðunum sem voru í New Orleans og þegar flogið var á tvíburaturnana í New York.

Hann segir það erfiðara í dag að sjá þær öru breytingar sem orðið hafa, til dæmis á netþjónum því stærðin á tölvukassanum er svipuð en innihaldið er gjörbreytt. Af þeirri ástæðu voru dregnar fram þær breytingar sem átt hafa sér stað. Það var til dæmis gert með því að stilla upp almenningstölvum í beina tímalínu.

Miklar breytingar á stuttum tíma

Á sýningunni mátti sjá tölvu sem kom í fyrstu IBM sendingunni til Íslands og er hún frá árinu 1983 en árið áður byrjaði tölvurisinn IBM að selja sínar fyrstu almenningstölvur.

Á hinum enda tímalínunnar voru nýjustu ferðatölvurnar frá IBM. Þannig mátti sjá hve mikið diskadrif hafa minnkað, geymslurými stækkað og gífurlegar breytingar á útstöðvum, svo sem á takkaborðum og skjáum. "Þetta er að gerast á tiltölulega stuttum tíma," segir Þórður og bætir því við að breytingarnar muni halda áfram að vera jafn örar, ef ekki örari en aftur á móti munu þær verða æ minna sýnilegar og á því var verið að vekja athygli.

Aukin samþætting tölvukerfa

Ein af fortíðarútstöðvum sem var til sýnis er 19 ára gömul og er notuð enn þann dag í dag við reikningsgerð, fjárhagsbókhald og lagerkerfi. Þórður segir það til marks um góða endingu IBM tölva.

Aðspurður um hvað framtíðin beri í skauti sér segir Þórður það ekki vera neitt eitt en nefnir sem dæmi aukna samþættingu tölvukerfa.