*

Tölvur & tækni 2. september 2015

Nýi vafrinn frá Microsoft nær ekki flugi

Microsoft Edge vafrinn er farinn að dala aftur í vinsældum eftir að hafa náð um 20% hlutdeild meðal Windows 10 notenda.

Vinsældir Microsoft Edge vafrans, sem rann úr hlaði á sama tíma og Windows 10 stýrikerfið, hafa dalað verulega frá því í lok júlímánaðar. Vafrinn hafði um 20% hlutdeild í notkun í lok júlí meðal notenda Windows 10, en hlutdeild vafrans er nú um 14%. Chrome trónaði á toppnum með um 60% hlutdeild. Hlutdeild Edge vafrans meðal Windows 10 notenda er nokkru minni en hlutdeild Firefox. Business Insider greinir frá þessu.

Microsoft Edge hefur um 2% hlutdeild meðal allra tölvunotenda. Þessi lága hlutdeild kemur reyndar ekki á óvart, en aðeins lítill hluti tölva er með Windows 10 stýrikerfið enn sem komið er.

Microsoft hefur lengi átt í erfiðleikum með að afla netvöfrum sínum vinsælda, en vinsældir Internet Explorer vafrans meðal netnotenda hafa farið stöðugt minnkandi síðasta áratug.

Stikkorð: Microsoft