*

Menning & listir 27. febrúar 2016

Nýir litir á hverju ári

Almar Alfreðsson er vöruhönnuður sem er þekktastur fyrir verk sitt „Jón í lit“.

Eydís Eyland

Almar var ættleiddur frá Gvatemala til Íslands þegar hann var aðeins tveggja mánaða gamall og er hans heimabær höfuðborg Norðurlands, Akureyri. Almar er menntaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands og útskrifaðist hann þaðan árið 2011. Eftir vinnu hitti Almar á ísköldum mánudegi fyrir norðan til að vita meira um Jón í lit og Sjoppuna vöruhús.

Þú ert menntaður vöruhönnuður, af hverju valdirðu þá leið?

„Hugmyndin var alltaf að verða eins og pabbi, fara í viðskiptafræði, þannig að ég fór í Verkmenntaskólann á Akureyri og valdi mér viðskiptabraut. Þegar ég kláraði viðskiptabrautina fann ég að áhuginn var orðinn meiri fyrir matargerð þannig að ég ákvað að byrja á grunndeild matvælabrautar í VMA. Þar kláraði ég eitt ár og fékk þá samning hjá veitingastaðnum Apótekinu sem var í miðbæ Reykjavíkur þannig að ég flyst suður með konunni minni henni Heiðu og byrja að vinna þar. Þá fer ég að átta mig á að ég er meiri áhugamaður um mat en atvinnumaður.

Þar sem ég var fluttur suður með konunni minni ákvað hún í kjölfarið að fara í Háskólann í sagnfræði og ég fór ég þá að vinna við ýmis störf sem þjónn, í gestamóttöku o.fl. En svo kom að því að ég fór að hugsa hvað ég vildi gera í alvörunni, hvað mér finnst gaman að gera og þá stóð upp úr að teikna og skapa eitthvað. Út frá því ákvað ég að sækja um í Listaháskóla Íslands og fór að skoða hvað væri í boði. Þetta var árið 2006 og þá var arkitektúrinn og grafísk hönnun á hraðri uppleið. Ég varð frekar hræddur við að komast ekki inn þar sem það þurfti að útbúa möppu og slíkt sem ég hafði bara ekki grunninn í. Ég tel mig mjög vandvirkan þannig að ég ákvað að byrja á að fara á hönnunarbraut í Tækniskólanum áður en ég myndi sækja um í Listaháskólann.

Þar ætlaði ég að taka fyrst grunninn en námið var svo skemmtilegt að ég ílengdist og kláraði það nám næstum því. Eftir veru mína þar sá ég að ég var algjörlega á réttri braut. Þannig að árið 2008 sótti ég um í tveimur deildum, arkitektúr og grafískri hönnun. En í skemmtilegu samtali við Godd (Guðmundur Oddur Magnússon), sem er prófessor í Listaháskólanum, hvatti hann mig til að skoða vöruhönnun líka þar sem ég væri greinilega með góða þrívíddarskynjun. Þannig að ég sló til og sótti um í vöruhönnun líka. Ég komst síðan inn í vöruhönnunina og líkaði það meiri háttar vel. Það var enginn kúrs leiðinlegur í náminu, það var allt skemmtilegt og fjölbreytt. Við meðal annars hönnum rými, umbúðir, stóla, upplifun og margt fleira,“ segir Almar.

Nánar er rætt við Almar í Eftir vinnu sem fylgdi Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag.