*

Bílar 10. apríl 2021

Nýir rafbílar frumsýndir

Mercedes-Benz EQA og Kia EV6 eru meðal þeirra rafbíla sem hafa verið kynntir nýlega.

Róbert Róbertsson

Nýir og spennandi rafbílar voru kynntir leiks nú rétt fyrir páska. Sumir eru komnir til landsins, aðrir í framleiðslu og enn aðrir eru enn á hugmyndastiginu. Hér eru þeir helstu nefndir til sögunnar.

Nýr Kia EV6 dregur 510 km

Kia EV6 var frumsýndur í netheimum í síðustu viku. EV6 er sportlegur jepplingur og dregur allt að 510 km á einni hleðslu. EV6 er hreinn rafbíll og fyrsti bíllinn af nýrri kynslóð rafbíla suður-kóreska bílaframleiðandans. Þá er þetta einnig fyrsti bíll Kia sem byggður er á nýjum og háþróuðum E-GMP undirvagni (Electric-Global Modular Platform) sem er sérstaklega hannaður fyrir rafbíla. Þessi nýi undirvagn verður notaður í næstu kynslóðir rafbíla hjá Kia.

Hinn nýi EV6 er þróaður samkvæmt nýrri hönnunarstefnu Kia sem einblínir á rafbíla suður-kóreska framleiðandans. Hönnunin er djörf og framsækin í takt við þær spennandi nýjungar sem rafbílar kalla fram. Hægt er að hlaða bílinn allt að 80% hleðslu á aðeins 18 mínútum og ná hleðslu sem dugar allt að 100 km á innan við fjórum og hálfri mínútu.

Kia EV6 er í boði bæði aftur- og fjórhjóladrifinn. Veghæð bílsins er 17 cm og farangursrými allt að 541 lítrar. Dráttargetan er um 1600 kg. Kia EV6 er aflmikill rafbíll og hægt er að velja um 229 og 325 hestafla rafmótor. Bíllinn verður svo einnig fáanlegur í GT útfærslu sem er 580 hestöfl og kemst úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 3,5 sekúndum. Hámarkshraði bílsins er 260 km/klst. Framleiðsla á bílnum hefst í júlí en hann verður frumsýndur hér á landi seinni hluta ársins.

EQA mættur á svæðið

Nýr Mercedes-Benz EQA er kominn til landsins en um er að ræða hreinan rafbíl með allt að 426 km drægi samkvæmt WLTP staðli. Bíllinn er búinn 66,5 kW rafhlöðum og 190 hestafla rafmótor sem skilar honum úr kyrrstöðu í hundraðið á 7,9 sekúndum ef miðað er við EQA 250. Hámarkstog EQA 250 er 375 NM.

Hægt er að hlaða bílinn allt að 80% á 30 mínútum í hraðhleðslu en það tekur um 5 klukkustundir og 45 mínútur að fullhlaða í venjulegri heimahleðslustöð og u.þ.b. 4 klukkustundir frá 10-80%.

Von er á EQA með fjórhjóladrifi strax í sumar. Sá bíll verður í boði með allt að 285 hestafla útfærslu sem er aðeins 5,5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. EQA er byggður á hinum nýja MFA2 undirvagni frá Mercedes-Benz sem verður einnig notaður í EQB en sá bíll verður sjö manna rafdrifinn fjölskyldujepplingur, sá fyrsti frá Mercedes-Benz.

Hönnun EQA er flott og framsækin í anda EQ-stefnu þýska lúxusbílaframleiðandans. EQA á margt að sækja í EQC, fyrsta rafsportjeppa Mercedes-Benz. Má þar nefna LED línu á fram- og afturljósum bílsins og sportlegt grillið að framan. EQA verður í boði í þremur útfærslum; Pure, Progregressive og Power, en grunnútfærsla bílsins er þegar mjög vel útbúin. Til dæmis má nefna 2x 10,25” stafrænt stjórnrými með MBUX margmiðlunarkerfi, íslensku leiðsögukerfi, Apple CarPlay, o.fl.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Kia EV6  • Mercedes-Benz EQA