*

Bílar 4. janúar 2019

Nýir Toyota RAV4 og Lexus ES frumsýndir

Nýr Toyota RAV4 er kominn á markað, og Lexus ES línan kemur til Evrópu í fyrsta sinn.

Nýja árið byrjar með látum hjá Toyota og Lexus því á morgun laugardag verða nýir Toyota RAV4 og Lexus ES frumsýndir kl. 12-16 hjá viðurkenndum söluaðilum Toyota í Kauptúni, Reykjanesbæ, á Selfossi og Akureyri.

Fyrsti RAV4 bíllinn kom á markað árið 1994 og má segja að bíllinn hafi verið frumkvöðull í flokki jepplinga. Útlit nýrrar kynslóðar bílsins hefur vakið mikla athygli og er hann gjörbreyttur að sjá miðað við fyrri gerð. Farþegarými hefur verið stækkað og farangursrýmið er mikið. Þar má meðal annars auðveldlega koma fyrir fullorðinshjóli án þess að taka það í sundur. RAV4 er fáanlegur í bæði bensín- og Hybridútfærslum. Ný bensínvél skilar 173 hestöflum og ný 2.5l Hybridvél skilar 222 hestöflum og hröðun frá 0-100 km á 8,1 sekúndu.

Toyota Safety Sense öryggiskerfið er staðalbúnaður í RAV4 en það hjálpar við að skynja önnur ökutæki, hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur í umhverfinu. RAV4 er einnig búinn LDA-akgreinaskynjara og sjálfvirkum hraðastilli. RAV4 er með 7 ára ábyrgð eins og aðrir bílar frá Toyota frá áramótum og kostar frá 5.090.000 kr.

Lexus ES í fyrsta sinn í Evrópu
Sjöunda kynslóð Lexus ES verður einnig frumsýnd á morgun en þetta er sú fyrsta sem kynnt er í Evrópu því bíllinn hefur hingað til aðallega verið seldur í Bandaríkjunum, Rússlandi og í Asíu. Lexus ES er lúxus fólksbíll sem ber hönnuðum og handverksmönnum Lexus gott vitni. Innrétting er fáguð og mikið pláss er í farþega- og farangursrými en Lexus ES hefur besta fótarými bíla í þessum flokki.

Lexus ES er hlaðinn staðalbúnaði, meðal annars árekstrarviðvörunarbúnaði, akreinavara, árekstrarvara, sjálfvirkum hraðastilli og umferðaskiltagreiningu enda fékk hann nýlega 5 stjörnur fyrir öryggi hjá Euro NCAP rannsóknarfyrirtækinu og var útnefndur öruggasti bíllinn í flokki stærri fólksbíla og í flokki Hybrid og rafmagnsbíla.  

Lexus ES verður fáanlegur í fjórum útfærslum, Comfort, Executive, F Sport og Luxury og kostar frá 8.100.000 kr.