*

Menning & listir 22. maí 2013

Nýjar sögur um Sval og Val fyrir jólin

Stefán Pálsson sló 17 ára gamalt ræðumet Jóhönnu Sigurðardóttur með erindi um myndasögubækur.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Bók með tveimur sögum um um ævintýri þeirra Svals og Vals koma út í íslenskri þýðingu fyrir næstu jól. Sögurnar eru Arfurinn og Vitskerti prófessorinn. Fram kom í máli Stefáns Pálssonar sagnfræðings sem vann að því í allan dag að slá ræðumet Jóhönnu Sigurðardóttur, fráfarandi forsætisráðherra, að bækurnar sem væntanlegar eru hafi verið á meðal þeirra sagna sem komu út áður en fyrstu eiginlegu bækurnar um Sval og Val komu út. Fyrsta sagan um Sval kom út í teiknimyndablaði árið 1938 og gaf útgáfan Iðunn bækurnar um Sval og Val út í íslenskri þýðingu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

„Ég vona að menn styðji vel við bakið á mjög metnaðarfullu verki,“ sagði Stefán og bætti við að hann vonaðist til að þýðingar á fleiri bókum úr myndasöguröðinni muni líta dagsins ljós í kjölfarið.

Sló metið 

Stefán hóf erindi sitt um bækurnar klukkan 9 í morgun. Þegar klukkuna vantaði stundarfjórðung í átta í kvöld sagði hann þetta orðið harla gott en eiga nóg eftir. Hann var enn að klukkustund síðar. Þegar hann leit upp á klukkuna rúmlega 9 í kvöld voru liðnar 12 klukkustundir frá því hann steig í pontu. Hann sagði stutt eftir og þyrfti enginn að bíða til miðnættis. 

Jóhanna setti ræðumet 14. maí árið 1998 þegar hún flutti 65 blaðsíðna ræðu í rúmar 10 klukkustundir um húsnæðiskerfið á Alþingi þegar verið var að setja lög um Íbúðalánasjóð. Ræða hennar hófst klukkan 12:27 og endaði klukkan kortér í eitt um nóttina. Jóhanna tók sé reyndar hlé, s.s. til að snæða hádegisverð.