*

Tölvur & tækni 21. júlí 2014

Nýjasta flaggskip Nokia komið á markað

Margar nýjungar er að finna í Nokia Lumia 930, eins og nýjustu útgáfu af Windows Phone stýrikerfinu.

Nýjasta flaggskipið frá Nokia, Nokia Lumia 930, kom á markað á Íslandi um miðjan júlí. Vel hefur verið tekið á móti símanum hérlendis, að því er fram kemur í fréttatilkynningu sem Opin Kerfi, umboðsaðili Nokia á Íslandi, sendi frá sér.

Margar nýjungar er að finna í Nokia Lumia 930, svosem nýjustu útgáfu af Windows Phone stýrikerfinu. Í símanum er 20 megapixla Carl Zeiss myndavél sem tekur upp hljóð með fjórum hljóðnemum í 5.1 Dolby Surround. Þá er rafhlaða, örgjörvi og vinnslugeta símans með besta móti auk þess sem hann skartar fimm tommu Amoled 1080p „Full HD ClearBlack“ skjá.

Í tilkynningunni segir að með Lumia síma geti notandi samhæft öll sín Microsoft tæki sem geri upplifunina sérlega skemmtilega og notendavæna. Þannig er hægt að hafa aðgang að skjölum, ljósmyndum og fleiru á öllum tækjunum, hvort sem það er í símanum, tölvunni, spjaldtölvunni eða leikjatölvunni.

Stikkorð: Nokia Lumia