*

Menning & listir 29. júlí 2019

Nýjasta mynd Ingvars E. valin best

Myndin Hvítur, hvítur dagur hlýtur aðalverðlaun kvikmyndahátíðar í Króatíu, og eru það þriðju verðlaun myndarinnar.

Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason var valin besta mynd kvikmyndahátíðarinnar í Motovun í Króatíu á  laugardagskvöld. Ingvar E. Sigurðsson, aðalleikari myndarinnar, tók við verðlaununum, en myndin er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.

Það var einróma ákvörðun dómnefndar að velja myndina, sem sögð er takast á við tilfinningar og andlegt álag sorgarinnar á sérstakan hátt. „Þessi súrsæta lýsing á pirruðum og þunglyndum lögreglumanni skyldi eftir sig djúp spor hjá okkur,“ segir þar meðal annars.

Þetta eru þriðju verðlaun myndarinnar en Ingvar vann Louis Roederer Rising Star verðlaunin í Cannes og einnig leikaraverðlaunin á Alþjóðlegu Transilvaníu Kvikmyndahátíðinni í Rúmeníu. Kvikmyndin Hvítur Hvítur Dagur verður frumsýnd 6.september hér á landi, en hægt er að sjá sýnishorn úr myndinni hér.

Sagan fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst.

Helstu leikarar eru:

 • Ingvar E. Sigurðsson
 • Ída Mekkín Hlynsdóttir
 • Hilmir Snær Guðnason
 • Arnmundur Ernst Backman
 • Björn Ingi Hilmarsson
 • Elma Stefanía Ágústsdóttir
 • Haraldur Ari Stefánsson
 • Laufey Elíasdóttir
 • Sara Dögg Ásgeirsdóttir
 • Sigurður Sigurjónsson
 • Sverrir Þór Sverrisson
 • Þór Tulinius.

Myndin er framleidd af Join Motion Pictures en Anton Máni Svansson er framleiðandi hennar.