*

Hitt og þetta 9. september 2020

Nýjasta tækni og vísindi aftur á RÚV

Fyrrum elsti sjónvarpsþáttur landsins utan frétta og Stundinni okkar hefur aftur göngu sína eftir 16 ára fjarveru.

Nýjasta tækni og vísindi hefur loks göngu sína aftur eftir langa fjarveru af skjáum landsmanna, en þættirnir voru elsti þátturinn á dagskrá Sjónvarpsins að undanskildum fréttum og Stundinni okkar þegar hann lauk göngu sinni í upphafi aldarinnar.

Þættirnir voru sleitulaust á dagskrá Ríkisútvarpsins á árunum 1967 til 2004, fyrstu tíu árin í umsjón Örnólfs Thorlacius en árið 1974 kom dýrafræðingurinn Sigurður H. Richter til liðs við þáttinn og sáu þeir um hann í sameiningu til ársins 1980.

Þá tók Sigurður alfarið við gerð þáttanna eftir að Örnólfur var skipaður rektor Menntaskólans við Hamrahlið. Umsjónarmenn þáttarins nú eru þau Sigmar Guðmundsson, Sævar Helgi Bragason og Edda Elísabet Magnúsdóttir.

Efnistökin í þáttunum nú eiga að vera eftir sem áður fjölbreytt og fróðleg en í þáttunum verða íslenskar vísindarannsóknir í forgrunni. Fjallað er um allt milli himins og jarðar, svo sem öldrun, hvali, sprotafyrirtæki og snjallheimilið svo fátt eitt sé nefnt.