*

Bílar 16. september 2016

Nýjasti bíllinn frá Volvo

Volvo heimsfrumsýndi V90 Cross Country í dag.

Volvo heimsfrumsýndi í dag V90 Cross Country og er ekki laust við að mikil eftirvænting hafi legið í loftinu eftir þessum nýjasta bíl sænska bílaframleiðandans. V90 Cross Country sver sig í ætt við aðra Volvo bíla hvað varðar hönnun að utan sem og innan. Hann er fallega hannaður bíll sem líkist V90 og S90 bílunum mjög enda nátengdur þeim en bara í skutbílsútfærslu og með hærri veghæð en hinir tveir. Það verður að hrósa Volvo fyrir flotta hönnun á flestum bílum sínum að undanförnu og þessi bíll er engin undantekning. Þessi nýjasti bíll Volvo er vel búinn í alla staði og með ýmsan lúxus innanborðs.

Bíllinn er mjög stór og stæðilegur með mikið pláss fyrir farþega og sérlega mikið farangursrými. Volvo hefur framleitt Cross Country bíla í 20 ár og nýjasta afkvæmið er klárlega það flottasta í þessari línu Svíanna. Volvo hefur ekki gefið út formlega hvaða vélar bíllinn verður búinn en líklegt er talið að hann fáist með D5 dísilvélinni sem skilar um 232 hestöflum, T5 vélinni sem skilar um 242 hestöflum og bensínvél sem skilar nálægt 316 hestöflum. Síðan er spurning hvort T8 tengiltvinnvélin kemur líka með bílnum eins og sú sem er í XC90 lúxusjeppanum í Plug-In Hybrid útfærslu.

Stikkorð: Volvo  • heimsfrumsýning  • V90