*

Bílar 7. mars 2013

Nýjasti Lamborghini sportbíllinn kostar hálfan milljarð

Aðeins verða framleidd þrjú eintök af Lamborghini Veneno sportbílnum og hafa þau öll þegar verið seld.

Öll eintök af nýjum sportbíl frá ítalska framleiðandanum Lamborghini eru uppseld og voru það reyndar löngu áður en fyrsti bíllinn leit dagsins ljós. Það er ef til vill ekki að undra því aðeins verða framleidd þrjú eintök af Veneno bílnum og kostar hver þeirra um 490 milljónir íslenskra króna.

Lamborghini er þekkt fyrir að framleiða einstaka bíla í mjög litlu upplagi og var Veneno bíllinn kynntur á bílasýningu í Genf á mánudag. Bíllinn, sem heitir í höfuðið á sérstaklega mannýgu nauti, er einn sá kraftmesti sem framleiddur hefur verið. Hann getur fræðilega farið upp í 355 kílómetra hraða á klukkustund og tekur aðeins 2,8 sekúndur að fara úr kyrrstöðu á 100 kílómetra hraða á klukkustund.

Bíllinn sjálfur er framleiddur úr kolefnistrefjaefni til að gera hann eins léttan og unnt er og vélin tólf strokka, sjö gíra, 6,5 lítra hörkutól sem býr yfir um 750 hestöflum.

Tveir af þeim þremur mönnum sem fest hafa kaup á dýrgripnum voru viðstaddir afhjúpunina í Genf og líkti einn þeirra, Bandaríkjamaðurinn Kris Singh II, bílnum við listaverk. „Þetta er listaverk á hjólum. Þetta er eins og að eiga Mónu Lísu,“ sagði hann. „Ég hlakka til að keyra hann.“