*

Tölvur & tækni 10. júlí 2013

Nýjasti sími BlackBerry kom á óvart

Það getur tekið svolítinn tíma að venjast snjallsímanum frá BlackBerry. Þegar það er að baki kemur í ljós hraðvirkt vinnutæki.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Nokkuð er um liðið síðan snjallsími BlackBerry Z10 kom á markað. Þetta er græjan sem á að koma Blackberry, áður Research in Motion, aftur á lappirnar eftir afleitt gengi síðustu misserin. Viðskiptablaðið hefur prófað símann í nokkurn tíma og líkar hann orðið nokkuð vel.

Snarpa stýrikerfið

Síminn keyrir á innahúss-stýrikerfi, þ.e. BlackBerry 10. Símann prýðir 4,2 tommu snertiskjár (sem er litlu stærra en 4 tommu skjár iPhone 5) ásamt því algengasta sem sést í flottari snjallsímum nú orðið: 8 MP myndavél sem skilar þokkalegum myndum, tekur upp myndskeið í háskerpu og með aðra 2 MP myndavél að framan. Innvolsið er í öflugri kantinum. Örgjörvinn er tvíkjarna 1,5 GHz með 2 MB vinnsluminni og 16 GB innra minni sem má stækka með SD-korti. Hraðinn kemur á óvart og vafrinn í símanum er með þeim snarpari. Flóran í smáforritaverslun BlackBerry kom á óvart enda mun fleiri forrit þar í boði en undirritaður bjóst við og virðist fljótt á litið verslunin síður en svo glíma við vöruskort.   

Tíma tekur að læra á símann

Stýrikerfi símans er svolítið óvenjulegt í augum þeirra sem hafa fram til þessa notað þá síma sem vinsælastir eru á markaðnum. Af þeim sökum þurfi undirritaður m.a. að venjast stýrikerfinu svolítið. Sem dæmi má nefna að enginn takki er á BlackBerry Z10 eins og á símum Samsung og iPhone sem gerir notendum kleift að fara á upphafsviðmótið. Í þessum þarf að renna fingri frá botni skjásins og upp til að fara til baka. Það gekk illa í fyrstu tilraunum. Þegar laginu var náð kom kosturinn stýrikerfisins í ljós: Það safnar þeim forritum sem síðast voru notuð í sarp og því einfalt mál að kalla þau aftur fram. 

Þá kemur síminn ekki síst koma þeim á óvart sem hafa notað eldri gerðir BlackBerry-síma í gegnum tíðina enda viðmótið allt annað. Hér t.d. er ekkert áfast lyklaborð eins og á eldri gerðum og hinum nýja BlackBerry Q10. Það verður að kalla upp á skjáinn eins og í öðrum símum með snertiskjá. Lyklaborðið í BlackBerry Z10 er hins vegar þeim kostum prýtt umfram önnur að tölustafir eru ofan við bókstafina á skjánum og einfaldar það til muna öll skrif á skjáinn.

Í hnotskurn

Það er ekki að sjá að vandræðagangurinn hjá stjórnendum BlackBerry hafi komið niður á þróunardeildinni. Blackberry Z10 er frambærilegasta tól sem er létt, fer vel í hendi og skilar sínu hratt og örugglega. Verðið er í hærri kantinum, á bilinu 129-139 þúsund krónur þó sem er á svipuðum slóðum og iPhone 5 frá Apple, Samsung Galaxy 4 og HTC One frá HTC.

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Stikkorð: Blackberry Z10