*

Bílar 15. október 2012

Nýji Volkswagen up! er áhugaverður smábíll

Hinn knái up! er sprækur og snöggur af stað.

Mikil borgarumferð og takmörkuð bílastæði hefur kallað á minni og liprari bíla, sem henta betur innanbæjar en eru samt fyllilega færir til lengri ferða. Afrakstur slíkrar þróunarvinnu hjá Volkswagen er up! sem er áhugaverður smábíll. Hann þykir raunhæft svar þýska bílaframleiðandans við aukinni sókn bíla í þessum stærðarflokki inn á markaðinn. 

Við fyrstu sýn er up! hreinræktaður Volkswagen, helsti munurinn er sá að þrátt fyrir skyldleikann við Polo og Golf eru hlutirnir bara einfaldari, en notagildið það sama. Þetta er einfaldlega bíll sem er að svara kröfum markaðarins um ódýran en um leið áreiðanlegan og lipran bíl. Volkswagen up! er sprækur bíll.

Undir vélarhlífinni er 1,0-lítra þriggja strokka vél sem er sprækari en margur gæti haldið. Aflið er 60 hestöfl sem gefur 95Nm snúningsvægi við 3.000 sn/mín., þannig að hinn knái up! er sprækur og snöggur af stað. Þetta er fínt afl í venjulegri borgarumferð, og með því að beita gírskiptingum rétt er auðvelt að halda ferðinni þótt brekkur séu framundan, enda er up! búinn liprum handskiptum gírkassa. Þessi lipra 3ja strokka vél er búin Blue Motion Technology og eyðir 4,1 lítrum á hundraðið, sem er góður kostur í heimi þar sem orkuverðið hækkar stöðugt. Einnig er væntanleg metanútfærsla í upphafi næsta árs.

Hinn smái en knái up! kemur líka á óvart hvað varðar plássið. Það er ágætt pláss fyrir fjóra fullorðna í bílnum, þótt hann sé nánast hálfum metra styttri en VW Polo, heildarlengdin er 354 cm. Farangursrýmið er 251 lítri og hægt er að leggja fram bak aftursætis til að fá meira pláss. up! verður einungis í boði í 5 dyra útfærslu og eru afturhurðirnar með rúðum sem opnast út til hliðar, í stað þess að vera skrúfaðar niður. Volkswagen up! var m.a. valinn bíll ársins hjá bílatímaritinu What Car? Hann er nú kominn á markað á Íslandi og var frumsýndur hjá Heklu um síðustu helgi.

Stikkorð: Volkswagen Up