*

Bílar 3. maí 2013

Nýr 7 manna Kia Carens kynntur í Fífunni

Þriðja kynslóðin af Kia Carens verður sýndur um helgina.

Róbert Róbertsson

Kia Motors mun kynna nýjan Kia Carens á Bílasýningunni í Fífunni um helgina. Þetta er þriðja kynslóð bílsins en bíllinn er mikið breyttur og raunar byggður á nýjum grunni miðað við forverana. Suður-kóreski bílaframleiðandinn hefur á undanförnum tveimur árum sent frá sér hvern endurhannaðan bílinn á fætur öðrum sem hannaðir eru af Þjóðverjanum Peter Schreyer og tekist vel til.

Þessi nýi Carens á að marka tímamót fyrir Kia í flokki stærri fjölskyldubíla eða svokallaðra margnotabíla sem kallaðir eru MPV á ensku. Carens er stór og rúmgóður 7 manna bíll með mikið farangursrými. Öftustu sætin tvö er hægt að fella niður ofan í gólfið og er þau því ekki fyrir ef þau eru ekki í notkun.

Eyðslugrannur og umhverfismildur

Carens er vel búinn bíll hvar sem á hann er litið. Nægir að nefna hluti eins og brekkuviðnám, hita í stýri, aðfellanlega útispegla, bakkmyndavél, 16 tommu álfelgur og beygjuljós til að sjá að um vel búinn bíl er að ræða í grunnútgáfu. Bíllinn er með 1,7 lítra dísilvél sem skilar 136 hestöflum og togið er alls 330 Nm. Hún skilar sambærilegu afli og togi og flestar tveggja lítra vélar í sama flokki.

Carens verður í boði með eyðslugrönnum og umhverfismildum dísilvélum þannig að um hagkvæman fjölskyldubíl er að ræða. Eyðslan er 5 lítrar í blönduðum akstri samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda og koltvisýringslosunin er 132 g/km.

Þessi nýi bíll er fyrst og fremst framleiddur og hannaður með þarfir fjölskyldunnar í huga þannig að hann nýtist vel fyrir ferðalög og öll áhugamálin. Carens er að sjálfsögðu með 7 ára verksmiðjuábyrgð eins og allir Kia bílar.

Stikkorð: Kia Motors  • Kia Carens