*

Bílar 10. maí 2021

Nýr alrafmagnaður Skoda Enyaq

Með tilkomu Enyaq tekur Skoda næsta skref í vistvænni stefnu sinni.

Róbert Róbertsson

Með tilkomu Enyaq tekur Skoda næsta skref í vistvænni stefnu sinni. Rafknúinn Enyaq er fyrsti bíll Skoda sem byggður er á nýjum MEB grunni. Hann er nú þegar fáanlegur afturhjóladrifinn en með haustinu er fjórhjóladrifin útgáfa væntanlega. Hægt er að velja um tvær stærðir rafhlöðu og er drægnin allt að 536 km. samkvæmt WLTP.

,,Frumsýning Enyaq markar nýtt tímabil fyrir Skoda. Þetta er fyrsti rafbíllinn okkar sem er byggður á MEB grunninum. Með Enyaq höfum við fundið vistvænum lausnum góðan farveg með langri drægni, hraðri hleðslu, einföldu sniðsmáti og viðráðanlegum verðum. Enyaq er framleiddur í hjarta Skoda, Mladá Boleslav, þar sem verksmiðjan okkar er sú eina innan Evrópu, fyrir utan Þýskaland, sem framleiðir bíla byggða á MEB grunninum. Þetta er góður vitnisburður um sérþekkingu Skoda," segir Thomas Schafer forstjóri Skoda Auto við frumsýningu Enyaq.

Skoda Enyaq er rúmgóður bíll með ríkulegt geymslupláss og rúmt innanrými. Hönnun Enyaq er stílhrein og framsækinn á sama tíma ásamt því að mikið var lagt upp úr því að plássið í bílnum nýtist sem allra best. Fjölmörg geymsluhólf eru meðal þess sem einkennir innanrýmið en umhverfisvæn áklæðisefni setja síðan punktinn yfir i-ið. Í vikunni kom svo til landsins enn sportlegri útgáfa af Enyaq og heitir sá Sportline og kemur á nýstárlegri felgum og troðfullur af sportlegum staðalbúnaði.