*

Bílar 20. apríl 2016

Nýr Audi A4 frumsýndur

Þýski lúxusbílaframleiðandinn Audi hefur sent frá sér nýjan A4 fólksbíl sem verður frumsýndur hjá Heklu á laugardaginn kl. 12-16.

Nýr Audi A4 hefur ekki breyst mjög í útliti frá forveranum en hann kemur tæknivæddari til leiks. Má þar nefna nýstárlegt Audi Virtual mælaborð með 12,3 tommu háskerpu LCD skjá sem gefur innanrýminu flott yfirbragð.

Audi Matrix LED aðalljósin skipta LED ljósinu niður í fjölda smárra díóða sem varpa birtunni með þremur endurkösturum. Stjórneiningin slekkur og kveikir á endurkösturunum eftir þörfum eða dregur niður birtuna í þeim öllum í 64 skrefum. Þær gefa alltaf nákvæma lýsingu og frábæra birtu. 

Hægt er að velja um fjölbreytt úrval véla þar sem eldsneytisnotkun hefur verið minnkuð um 21 prósent, samanborið við fyrri gerð, á meðan aflið hefur aukist um 25 prósent samkævmt upplýsingum frá framleiðanda.

Til dæmis kemst Audi A4 úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 5,8 sekúndum með 252 hestafla, 2,0 l. TFSI bensínvélinni. Dísilútfærslur vélanna eru allt frá 150 hestöflum upp í 272 hestöfl. Til viðbótar er Audi A4 að sjálfsögðu í boði með quattro fjórhjóladrifinu. Nýr Audi A4 hefur meðal annars hlotið hið eftirsótta gullstýri í flokki fólksbíla í millistærð. 

Stikkorð: Audi  • Bílar  • Audi A4