*

Bílar 20. febrúar 2015

Nýr Audi Q7 á leið á markað

Hönnun á nýjum Audi Q7 þykir umdeild meðal bílaáhugamanna.

Róbert Róbertsson

Audi hefur yfirleitt tekist mjög vel til á undanförnum árum varðandi hönnun á bílum sínum en hönnunin á nýjum Audi Q7 þykir umdeild meðal bílablaðamanna.

Við fyrstu sýn minnir nýr Audi Q7 eiginlega meira á langbaksútfærslu en straumlínulagaðan lúxusjeppa. Audi segir að nýja kynslóð Q7 eigi að vera 325 kg léttari en forverinn sem á að skila sér í sparneytnari og umhverfismildari jeppa. Nýr Q7 verður með þriggja lítra V6 TDI vél sem mun skila 268 hestöflum. Jeppinn verður með fínt afl og aðeins 6,3 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.

Seinna mun einnig bjóðast aflminni 215 hestafla dísilvél í jeppann. Seint á næsta ári mun Audi Q7 fást með tvinnaflrás, þ.e. með dísilvél og rafmótorum og mun heildarafl þess verða 368 hestöfl og togið 700 Nm. Aka má þeim bíl fyrstu 50 kílómetrana eingöngu á rafmagni. Allar gerðir jeppans verða fjórhjóladrifnar.

Nýr Q7 verður sýndur á bílasýningunni í Genf í næsta mánuði.

Stikkorð: Audi  • Audi Q7