*

Bílar 15. september 2012

Nýr bíll frá Suzuki kynntur í París

Mikil leynd hvílir yfir nýjum bíl frá Suzuki. Hann á að vera stærri en Swift en verður teflt fram í C-flokki.

Nýr bíll frá Suzuki S-Cross verður kynntur til leiks á alþjóðlegu bílasýningunni í Parísar eftir hálfan mánuð. Bíllinn mun bera heitið S-Cross og verður arftaki SX4-bílsins.

Bíllinn hefur verið á teikniborðinu í þó nokkurn tíma en líklegt verður að teljast að af framleiðslu hans verði þó ekki sé hægt að fullyrða neitt á þessari stundu.

Fátt er vitað um bílinn á þessari stundu annað en það að honum verður teflt fram í C-flokknum.  Hann verður því stærri en hinn laglegi Suzuki Swift sem ásamt jeppanum Grand Vitara eru vinsælustu bílar japanska bílaframleiðandans. Í millistærðarflokknum er síðan Suzuki Kizashi sem er sportlegur og skemmtilegur bíll.

Enn sem komið er er einungis til teikniskyssa af S-Cross og myndir af fram- og afturhluta hans. Sjaldnast verða endanlegir bílar eins og hugmyndabíllinn en eins og að framan segir er honum ætlað að leysa SX4-bílinn af hólmi. Verði bíll þessi að veruleika, sem verða að teljast miklar líkur, má búast við honum á markað árið 2014.

Stikkorð: Suzuki