*

Bílar 31. október 2013

Nýr BMW í 2-seríunni

Nýr sportbíll úr smiðju BMW verður frumsýndur í bílaborginni Detroit í Bandaríkjunum eftir áramótin.

Þýski lúxusbílaframleiðandinn BMW er að búa sig undir að setja á markað tveggja dyra sportlegan bíl sem bætist við 2-seríuna. Bíllinn er hinn laglegasti eins og búast má við frá BMW og ættarsvipurinn leynir sér ekki.

Mikið úrval véla verður fáanlegt í þennan nýja BMW bíl. Þrjár mismunandi öflugar 2ja lítra og fjögurra strokka dísilvélar, 141 hestafla 218d-vélin, 181 hestafla 220d-vélin og 215 hesta  225d-vélin. Þá verða einnig bensínvélar í boði m.a. 181 hestafla fjögurra strokka 220i-vélin.

Sportlegasta útgáfa bílsins verður M235i en sá verður í boði með sex strokka vél með tvöfaldri forþjöppu sem skilar 326 hestöflum við hámarkstog. Bíllinn er aðeins 5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið með handskiptingu en 4,8 sekúndum með sjálfskiptingu. Hámarkshraði verður 250 kM /klst. Samkvæmt upplýsingum frá BMW á þessi aflmesta útgáfa bílsins að eyða aðeins 8,1 lítra á hundraðið.

Nýi bíllinn í 2-seríunni verður frumsýndur á bílasýningunni í Detroit í Bandaríkjunum í janúar nk. og BMW áætlar að setja bílinn á markað seint á næsta ári.

Stikkorð: BMW