*

Bílar 22. nóvember 2019

Nýr BMW X5 frumsýndur og nýtt húsnæði

Á morgun laugardag verða bílasýningar hjá bæði Toyota og BMW sem og að fyrsta sýningin í nýju húsnæði Honda.

Nýr BMW X5 verður frumsýndur á morgun laugardag en auk þess verða bílasýningar hjá Toyota og Honda, sem heldur fyrstu sýningu sína í nýjum húsakynnum á Fosshálsi.

Nýr og uppfærður BMW X5 xDrive45e tengiltvinnbíll verður frumsýndur á morgun, laugardag milli kl. 12 og 16 í sýningarsal BMW hjá BL við Sævarhöfða. Meðal nýjunga í þessum stærsta og tæknivæddasta fjórhjóladrifna jeppa í fjölskyldu xDrive-bíla BMW er m.a. uppfærð og árangursríkari raftækni, sem skilar allt að 80 km drægni í akstri þegar ekið er eingöngu með rafmótorinn virkan.

Þessi aukna drægni getur fært mörgum meiri fjárhagslega hagkvæmni við dagleg og reglubundin not bílsins í formi færri áfyllinga á bensínstöðvum. Auk 82 kW og 112 hestafla rafmótorsins er þriggja lítra, sex strokka 286 hestafla og 210 kW bensínvél með tvöfaldri túrbínu af nýjustu kynslóð. Hámarkshraði BMW X5 xDrive45e er 135 km/klst þegar ekið er eingöngu á rafmótornum og 235 km/klst á báðum vélum en sameiginlegt afl þeirra er 290 kW og 394 hestöfl sem skila 600 Nm togi.

Auk nýjustu raftækni BMW er nýr X5 xDrive45e búinn nýjustu ökutækni framleiðandans sem skilar framúrskarandi akstursánægju, rásfestu og snerpu en rafmótorinn skilar bílnum á einungis 5,6 sekúndum úr kyrrstöðu í hundrað.

Honda og Toyota bílar sýndir

Fyrsta Honda sýningin í nýjum húsakynnum á Fosshálsi 1 fer fram á morgun kl 12-16. Þar verður öll Honda línan sýnd, fólksbílarnir Jazz og Civic, borgarjepplingurinn HRV og sportjeppinn vinsæli CRV. Þetta er fyrsta Honda sýningin á vegum Bílaumboðsins Öskju sem tók yfir Honda umboðið á dögunum.

Nú fer tími vetrarferða og vetrarútivistar að ganga í garð og að því tilefni býður Toyota til Vetrarleika, hátíðar- og sölusýningu hjá viðurkenndum söluaðilum í Kauptúni og Reykjanesbæ á Akureyri og Selfossi á morgun. Á sýningunni verður gott úrval bíla sem henta sérstaklega til vetrarferða og þar fara Land Cruiser, Hilux og RAV4 fremstir í flokki. Þessir bílar hafa fyrir löngu sannað sig í krefjandi vetraraðstæðum á Íslandi og sjá má gott úrval af þessum bílum á sýningunni.

Stikkorð: BMW  • Toyota  • Honda