*

Bílar 27. desember 2020

Nýr Caddy á leiðinni

Símon Orri Sævarsson viðskiptastjóri hjá Heklu er tekinn tali um nýju Caddy 5 línuna sem verður í boði á komandi ári.

Róbert Róbertsson

Volkswagen atvinnubílar bjóða upp á mikla breidd í atvinnubifreiðum. Framboðið mun aukast á næsta ári en þá er nýr Caddy 5 væntanlegur á markað. Volkswagen Caddy hefur síðustu ár trónað á toppi mest seldra sendibíla í sínum flokki, hér á landi sem og um allan heim að sögn Símonar Orra Sævarssonar, viðskiptastjóra hjá Heklu.

Caddy fæst bæði sem sendibifreið og fólksbifreið en þá sem fimm sæta og jafnvel sjö sæta rúmgóð bifreið. Símon Orri segir að nú strax eftir áramót frumsýni Hekla nýjan Volkswagen Caddy 5. Bíllinn er byggður á nýjum MEB grunni frá Volkswagen og stuðlar að auknum þægindum í akstri sem og fyrir farþega, hvort sem um sendibifreið eða fólksbifreið er að ræða.

Margar nýjungar eru í boði í þessum nýja bíl auk þess sem hleðslurými, hurðaop, innrarými bílstjóra og farþega hefur verið stækkað. Einnig verða allar helstu nýjungar Volkswagen í boði en þar má nefna stafrænt mælaborð, hitamiðstöð með tímastilli og fjarstýringu, nýtt viðmót á margmiðlunarskjá og stýrikerfi sem býður upp á tengingu við app.

„Nýja Caddy 5 línan verður samkvæmt Volkswagen í boði í bensín, dísil og metan/bensín vélarútfærslum og verður enn sparneytnari en áður. Búast má við að með öllum þeim nýjungum og tækni sem í boði verða í bílnum verður Caddy 5 enn sterkari en nokkru sinni fyrr," segir Símon Orri.

Rafmögnuð sendibifreið

Símon Orri segir rafmagnssendibifreiðina hafa komið sér sérstaklega skemmtilega á óvart en fyrsta Volkswagen e-Crafter sendibifreiðin kom til landsins fyrir um ári. e-Crafter er stór 100% rafknúin sendibifreið sem sameinar alla kosti hefðbundinna vinnubíla og hentar mjög vel í allan hefðbundinn innanbæjarakstur.

Staðalbúnaður bílsins er fjölbreyttur, rýmið stórt og hleðslugetan góð. „Reynslan á árinu af sendibifreið knúna áfram með rafmagni er einkar góð og hafa viðbrögð viðskiptavina okkar sýnt það að hann hefur staðið undir öllum væntingum sem til hans eru gerðar."

Íslenska vetrarfærðin

Nú í snjó og vetrarfærð sem er úti má ekki gleyma sérstöðu Volkswagen atvinnubíla þegar kemur að fjórhjóladrifi og aksturseiginleikum. Allar bifreiðar frá Volkswagen atvinnubílum eru fáanlegar með fjórhjóladrifi, bæði beinskiptar og sjálfskiptar.

Fjórhjóladrifskerfi Volkswagen atvinnubílanna er hannað til að auka afkastagetu þeirra í snjó og hálku, hvort sem bifreiðin er þungt hlaðin eða ekki. Volkswagen hefur einbeitt sér að því að útbúa fjórhjóladrifnar bifreiðar án þess að breyta lestunarhæð þeirra, sem kemur sér sérstaklega vel þegar hlaða á í bílana þungum farmi.

Nýjar línur sendibifreiða

Transporter T6.1 lína er nýjasta lína Volkswagen þegar það kemur að millistórum sendibifreiðum og allt að níu sæta fólksbifreiðum. Nýja línan kom á markaðinn á árinu 2020 og hefur fengið góðar viðtökur. Transporter T6.1 kemur í fjölmörgum útgáfum, allt frá flottum sendibifreiðum í lúxus fólksbíla með öllum þeim helstu þægindum sem býr í lúxusbílum.

Síðla næsta árs mun Volkswagen heimsfrumsýna Volkswagen T7 Multivan. „Mikil tilhlökkun er eftir þeim bíl en gefið hefur verið út að hann verði fáanlegur bæði sem hefðbundin dísil bifreið og sem tengiltvinnbíll sem gengur þá einnig fyrir rafmagni," segir hann.

Vistvæn framtíð

„Volkswagen hefur lagt mikið til þróunnar vistvænna ferðamáta síðustu ár", útskýrir Símon og bætir við. „Volkswagen atvinnubílar hafa til að mynda boðið upp metanknúnar bifreiðar í mörg ár og áframhald verður á því. En til að bæta um betur í flokk vistvænna sendibifreiða er margt á leiðinni í flokki rafdrifinna atvinnubifreiða en í því skyni má til að mynda nefna ID. Cargo eða Buzz. Volkswagen ID. Cargo eða Buzz verður fáanlegur sem sendibifreið og fólksbifreið og með rafmagnsdrægni frá 300 - 500 kílómetrum".

Að lokum segir Símon Orri að hin rafmagnaða ID. lína Volkswagen hafi verið að ryðja sér til rúms síðastliðið árið. „Áframhaldandi þróanir verða hraðar og munu nýjungarnar á komandi misserum vera margar og koma með stuttu millibili. Þetta er afar spennandi tímabil í allri bílasölu og eiginlega alveg ótrúlegt hve langt við erum komin á stuttum tíma í tækni og þróun. Breytingarnar eru örar og tilhlökkunin, mikil" segir Símon Orri að lokum.

Greinin birtist í blaðinu Atvinnubílablaðið sem fylgdi Viðskiptablaðinu fyrr í mánuðinum.

Stikkorð: Volkswagen  • Hekla  • Símon Orri Sævarsson