*

Bílar 20. október 2015

Nýr Caddy mættur til leiks

Volkswagen hefur kynnt fjórðu útgáfu af VW Caddy.

Fjórða kynslóð VW Caddy hefur verið kynnt til leiks en þessi vinsæli sendibíll hefur nú fengið nýtt útlit. Caddy verður frumsýndur hjá Heklu á næstunni.

Bíllinn er talsvert breyttur að framan og aftan. Þá eru miklar breytingar á innréttingum og ný hönnun á sætum. Innanrýmið lítur nú út eins og í fólksbílunum í Volkswagen línunni. Komin er ný kynslóð af sparneytnari og umhverfisvænni vélum, bæði dísil og bensín, og þá er hann einnig í boði sem metanbíll. Öll vörulína VW Caddy er með nýjum Euro 6 vélum, einnig sendibílar. Þá er nýtt 4Motion fjórhjóladrifkerfi í nýju kynslóðinni.

Caddy er í boði í fjölbreyttum útfærslum. Bíllinn er með allt að 1.500 kg dráttargetu, 4.7m3 hleðslurými og allt að 830 kg burðargetu. Nýja kynslóð Caddy hefur fengið góða dóma fyrir að vera fjölhæfur bíll með góða aksturseiginleika, mikil þægindi sem meðal annars fela í sér auðvelt aðgengi. Þá er mjög gott farangursrými og sæti fyrir allt að 7 manns. Í bílnum er 750 lítra farangursrými og 530 lítra farangursrými í 7 manna útfærslunni.