*

Bílar 21. desember 2020

Nýr Citroën ë-C4 á markað

Drægni nýjasta bíls Citroën á hreinu rafmagni nemur 350 kílómetrum en forsala hefst á miðnætti í kvöld.

Nýr Citroën ë-C4 er nýjasti bíllinn frá franska bílaframleiðandanum og er hreinn rafbíll. Drægni bílsins á 100% hreinu rafmagni er 350 kílómetrar. Citroën ë-C4 er framdrifinn með 15,6 cm veghæð. Citroën ë-C4 er sjálfskiptur með 136 hestafla, hljóðlátri rafmagnsvél og 260 Nm togkrafti. Stefnt er að því að allir bílar Citroën verði hreinir rafbílar fyrir árið 2025.

Innréttingin er nútímaleg og tæknileg. Í grunnbúnaði er snjallmiðstöð með tímastillingu og forhitun, varmadæla sem eykur virkni miðstöðvar og drægni bíls, 10” snjallsnertiskár í mælaborði, snjallhemlun sem virkar í myrkri og greinir gangandi og hjólandi vegfarendur, ökumannsvaki og veglínustýring sem aðstoðar við að halda stefnu á vegi.

Hægt er að fullhlaða drifrafhlöðu Citroën ë-C4 á fimm til sjö og hálfri klukkustund í öflugri heimahleðslustöð eða í 80% drægni á 30 mínútum í 100 kW hraðhleðslustöð.

Forsala á Citroën ë-C4 100% rafbíl hefst í Vefsýningarsal nýrra bíla hjá Brimborgar á miðnætti í kvöld. Sýningar- og reynsluakstursbílar koma til Íslands í lok janúar og afhendingar til viðskiptavina hefjast í febrúar samkvæmt upplýsingum frá Brimborg.

Stikkorð: Citroën  • ë-C4