*

Bílar 16. ágúst 2012

Nýr A-Class valinn fallegasti bíll Þýskalands

Nýja kynslóð A-Class er mjög mikið breytt frá þeirri fyrri og þykir bíllinn fagurlega hannaður að innan jafnt sem utan.

Róbert Róbertsson

Um 100 þúsund lesendur hins virta þýska bílatímarits AUTO BILD völdu á dögunum nýjan Mercedes-Benz A-Class fallegasta bíl Þýskalands árið 2012. Bílatímaritið stendur árlega fyrir þessu vali og gefst þá lesendum þess tækifæri að dæma hvaða þýski bíll þeim finnst flottastur.

Nýja kynslóð A-Class er mjög mikið breytt frá þeirri fyrri. Nýr A-Class þykir fagurlega hannaður að innan jafnt sem utan samkvæmt niðurstöðu AUTO BILD. Nýtt grillið að framan er fallega hannað sem og straumlínulagaðar hliðar bílsins og sportlegur afturhluti hans. Mikið er lagt upp úr vönduðu efnisvali í innréttingunni sem er mjög sportleg og flott.

Mikil eftirspurn er eftir bílnum semer nýkominn á markað í Evrópu. A-Class er væntanlegur til Íslands síðla hausts samkvæmt upplýsingum frá Öskju, umboðsaðila Mercedes-Benz á Íslandi.

Ný viðmið í tæknibúnaði

Mercedes-Benz setur ný viðmið í tæknibúnaði með A-Class en þar verður m.a. aðgengi fyrir snjallsíma. Ökumaður og farþegar geta því tengt iPhone® við tæknibúnað bílsins og nýtt möguleika símans til fulls. A-Class er hlaðinn öryggisbúnaði og má þar nefna árekstrarvara (Collision Prevention Assist) en búnaðurinn greinir þegar fjarlægð frá bíl eða kyrrstæðri mótstöðu er of lítil og lætur ökumann vita með mynd- eða hljóðmerki. Þessi búnaður hefur hingað til aðeins verið í boði í mun stærri og dýrari bílum.

Þá er A-Class einnig búinn Pre Safe kerfinu sem er fyrirbyggjandi öryggisbúnaður fyrir ökumann og farþega. Greini búnaðurinn varasamar akstursaðstæður strekkjast bílbeltin í framsætunum á broti úr sekúndu og hliðarrúður og sóllúga lokast sjálfkrafa. Þannig næst full virkni öryggisbelta og öryggispúða sem veita hámarksvörn ef til áreksturs kemur.

Stikkorð: Mercedes Benz  • Auto Bild