*

Bílar 4. desember 2017

Nýr CLS kynntur til leiks

Nýr Mercedes-Benz CLS var frumsýndur á bílasýningunni í LA.

Demantagrillið að framan gefur flotta sýn á nýjan CLS. Ljósin að framan eru með nýrri hönnun og skarpari línum en áður og þá er einnig nýr hönnun á afturljósum bílsins. CLS er sem fyrr með coupe lagi þannig að þaklínan kemur hallandi niður sem gefur þessum stóra fjögurra dyra lúxusbíl sportlegt yfirbragð. Innanrýmið hefur breyst talsvert og styðst nú allnokkuð við innréttingu nýja E-Class. Það er ekki leiðum að líkjast því E-Class er talinn með eina fallegustu innréttingu sem í boði er fyrir lúxus fólksbíl í dag. CLS býður upp á 64 mismunandi litatóna í innilýsingu. 12,3 tommu skjár sér um að veita ökumanni og farþegum alla tækni varðandi akstursupplýsingar og afþreyingu.

Nýr CLS kemur með nýjum vélarbúnaði bæði í dísil- og bensínútfærslum. Dísilvélarnar skila frá 286 til 340 hestöflum en aflmesta útfærslan er C 450 með 3 lítra besnínvél. Sá bíll er aðeins 4,8 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. CLS í AMG útfærslu verður þó enn aflmeiri þegar hann kemur á akrað í byrjun nýs árs en hann verður með 450 hestafla bensínvél.