*

Bílar 5. maí 2019

Nýr Defender prófaður í Afríku

Nú er ljóst að nýr og endurbættur Land Rover Defender kemur á markað á næsta ári.

Jaguar Land Rover hefur tilkynnt að ný og endurhönnuð gerð Land Rover Defender komi á markað í byrjun árs 2020.
Þangað til verður ein af frumgerðum bílsins notuð af alþjóðlegum náttúruverndarsamtökum í Kenía þar sem hann verður notaður í akstri um mjög erfiðar og fjölbreyttar aðstæður. Nýr Defender verður framleiddur í nýrri verksmiðju Jaguar Land Rover í Nitra í Slóvakíu.

Defender kom fyrst fyrir almenningssjónir á bílasýningunni í Amsterdam þann 30. apríl árið 1948. Næstu mánuði hyggjast tæknisérfræðingar fyrirtækisins, sem endurhönnuðu og þróuðu hinn nýja Defender í Bretlandi, nýta til að leggja lokahönd á vélbúnað, áreiðanleika og getu frumgerðar bílsins í umfangsmiklum prófunum við margvíslegar og krefjandi aðstæður í Kenía þar sem starfsmenn alþjóðlegu náttúru- og mannúðarsamtakanna Tusk Trust munu hafa eina af frumgerðum bílsins til afnota á verndarsvæðinu í Borana.

Það er vel við hæfi að lokaprófanirnar fari fram í Afríku þar sem Land Rover hefur verið áratugum saman helsti vinnuþjarkur starfsmanna alþjóðasamtaka á borð við Rauða krossinn, starfsmenn þjóðgarða og verndarsvæða fyrir vilt dýr og fleiri innlendar og erlendar stofnanir og samtök.