*

Bílar 16. september 2019

Nýr Defendur kynntur í Frankfurt

Land Rover kynnti nýjustu kynslóðina, Defender 110 sem er 7 manna, sem og styttri útgáfu Defender 90 á bílasýningu.

Langþráður draumur aðdáenda Land Rover Defender varð að veruleika þegar nýjasta kynslóð þessa ævintýralega jeppa var kynnt formlega á bílasýningunni í Frankfurt sem nú stendur yfir.

Nýr Defender 110, sem er lengri útgáfa bílsins, verður fáanlegur allt að 7 manna (2+3+2) og í fjórum útfærslum Base (standard), S, SE, HSE en í upphafi verður tímabundið einnig hægt að fá svokallaða First Edition útgáfu.

Kaupendur Defender geta síðan valið um mismunandi aukabúnað sem aldrei hefur verið í jafn miklu úrvali og í þessum nýja bíl eða alls 170 mismunandi hlutir auk sérstakra staðlaðra aukabúnaðarpakka, svo sem Explorer, Adventure, Country og Urban, allt eftir smekk hvers og eins. Fyrir þá sem hyggja á ævintýraferðir á nýjum Defender er hægt að fá fjarstýrt dráttarspil, topptjald með markísu og myndavél sem sýnir ökumanni undirlagið framan við framhjólin sem alla jafna er utan sjónsvæðis ökumanns.

Eins og var í eldri gerðum Defender verður styttri útgáfa bílsins í boði en hún kallast Defender 90. Styttri útgáfan verður þó ekki fáanleg alveg strax. Eins og í sönnum Defender verður hægt að fá bílgólfið klætt slitsterku vínylefni til að auðvelda þrif í farþegarýminu enda óhætt að skola það með vatnsslöngu.

Fjórar vélar í boði

Nýr Defender verður í upphafi fáanlegur með vali á tveimur mismunandi dísilvélum og tveimur bensínvélum. Dísilvélarnar eru fjögurra strokka, tveggja lítra, annars vegar 200 hestöfl, og hins vegar 240 hestöfl með Twin Turbo. Bensínvélarnar eru annars vegar fjögurra strokka, tveggja lítra og 300 hestöfl og hins vegar þriggja lítra, sex strokka og 400 hestöfl Hybrid.

Seinna er von á Defender í tengiltvinnútgáfu.  Fyrstu mánuði Defender á markaði verður einungis hægt að velja annað hvort 240 hestafla dísilútgáfuna eða 400 hestafla bensín í Hybridútgáfu. Von er á nýjum Defender til Íslands fljótlega í upphafi næsta árs og er gert ráð fyrir frumsýningu hans hjá Jaguar Land Rover við Hestháls í febrúar eða mars.