*

Bílar 10. mars 2014

Nýr ,,Draugur“ vekur aðdáun

Bílaáhugafólk fékk að sjá Rolls Royce Ghost á bílasýningunni í Genf.

Nýr Rolls Royce Ghost var frumsýndur á bílasýningunni í Genf sem nú stendur yfir. Bíllinn fékk að vonum mikla athygli og aðdáun sýningargesta enda ekki á hverjum degi sem nýr Rolls Royce er frumsýndur.

Um er að ræða talsvert breyttan bíl frá forveranum. Nýi bíllinn Ghost II hefur fengið ný LED-aðalljós, endurhannaða stuðaða, nýja vélarhlíf og felgur. Að innan hafa framsætin og mælaborðið tekið breytingum og hægt er að velja um tvær nýjar viðartegundir í innréttingu. 

Fjöðrunin í Ghost II hefur verið endurhönnuð og á að skila bílnum silkimjúkum akstri eins og breski lúxusbílaframleiðandinn er þekktur fyrir. Ghost II er með 6,6 lítra V12 vél með 48 ventlum. Þessi kraftmikla vél skilar 563 hestöflum og hámarkstog er 780 Nm. Bíllinn verður með átta þrepa sjálfskiptingu sem fyrst var kynnt í Wraith og notar GPS-tækni til að tryggja að bíllinn sé alltaf í réttum gír miðað við það sem framundan er á veginum.