*

Bílar 19. desember 2016

Nýr E-Class Coupé frumsýndur

Spánnýr Mercedes-Benz E Class Coupé var frumsýndur í lok síðustu viku.

Nýr Mercedes-Benz E-Class Coupé var frumsýndur í lok síðustu viku en hans var beðið með talsverðri eftirvæntingu eins og flestu sem kemur frá lúxusbílaframleiðandanum í Stuttgart. Þessi tveggja dyra sportbíll er glæsileg viðbót við nýja kynslóð E-Class línunnar sem frumsýnd var fyrr á árinu.

E-Class Coupé verður fáanlegur með fjórum vélarstærðum. Í E220d útfærslunni er hin nýja og hagkvæma 2,0 lítra dísilvél frá Mercedes-Benz sem er í hefðbundnum E-Class. Þrátt fyrir mikið afl og skilvirkni þá er hún eyðslugrennri og umhverfismildari en fyrri vélar sem í boði hafa verið. Þessi vél skilar sportbílnum 195 hestöflum og kemur honum í hundraðið á 7,4 sekúndum. Þá verða þrjár bensínvélar í boði í E-Class Coupé, sú kraftmesta er 3 lítra, 328 hestafla V6 vél í E400 bílnum sem skilar honum í hundraðið á aðeins 5,3 sekúndum. Bíllinn er með þremur aksturskerfum, Comfort, Sport og Sport + þannig að ökumaður getur ráðið hvernig tilfinningu hann vill hafa í akstrinum.

Sportbíllinn er fallega hannaður bæði að innan og utan og búinn og mikið er lagt upp úr lúxus. E-Class Coupé er mjög tæknivæddur bíll eins og hefðbundinn E-Class og hlaðinn nýjustu öryggis- og aksturskerfum frá þýska lúxusbílaframleiðandanum.