*

Bílar 22. maí 2020

Nýr Ford Kuga mættur

Ford hefur kynnt til leiks nýjan Ford Kuga. Sportjeppinn er fáanlegur bæði með tengiltvinnvél eða dísilvél.

Róbert Róbertsson

Nýr Ford Kuga hefur verið kynntur til leiks. Sportjeppinn er fáanlegur með tveimur mismunandi vélum sem eru afar sparneytnar og með lága CO2 losun. 

Annars vegar er um að ræða tengiltvinnvél sem samanstendur af bensínvél og tveimur rafmótorum með framdrifi og hins vegar er það aflmikil dísilvél með fjórhjóladrifi.

Hinn nýi Ford Kuga kemst allt að 56 km á rafmagninu með tengiltvinnvélinni áður en bensínvélin tekur við. Powersplit tæknin hleður bílinn meðan á akstri stendur. Orkan sem er fengin með hemlun er meðal annars notuð til að hlaða inn á rafgeymana. Ford Kuga býður upp á mikla dráttargetu eða allt að 2.100 kg með 2,0 lítra dísilvélinni og 1.200 kg með rafmagns/bensín tengiltvinnvélinni.

Ford hefur tekist vel til í hönnun á nýjum Ford Kuga bæði að innan sem utan. Bílaframleiðandinn heldur áfram að fá bestu mögulegu einkunn í öryggismálum. Nýr Ford Kuga er í hópi þeirra bílategunda sem hlotið hafa topp einkunn, fimm stjörnu öryggisvottun Euro NCAP.

Stikkorð: Ford  • Kuga  • Powersplit