*

Bílar 11. nóvember 2015

Nýr GLS lúxusjeppi frá Benz

Öflugasta gerðin verður AMG GLS63, en þannig mun jeppinn skila 577 hestöflum.

Mercedes Benz hefur kynnt nýjan lúxusjeppa að nafni GLS. Mun hann taka við af stóra GL jeppanum og verður flaggskip jeppalínu Mercedes-Benz.

Talsverðar breytingar eru á hinum nýja GLS miðað við forverann hvað varðar hönnun og búnað. Mesta breytingin er sýnileg á framendanum og sver hann sig þar í ætt við nýhannaða Mercedes-Benz bíla. 

GLS er sjö sæta jeppi og býður upp á mikið pláss fyrir fólk og farangur. Mikið er lagt í innanrými GLS sem líkist að mörgu leyti hinum glæsilega S-Class lúxusbíl hvað varðar efnisval og búnað. 

Öflugasta gerð GLS verður AMG GLS63 en sá bíll verður með 577 hestafla vél undir húddinu. GLS500 verður með V8 vél með tveimur forþjöppum sem skilar 455 hestöflum. Þriggja lítra dísilútgáfa jeppans verður 255 hestöfl en einnig má fá hann með þriggja lítra bensínvél með tveimur forþjöppum og er hún 329 hestöfl. 

Allar útfærslur hins nýja GLS verða með níu gíra 9G-TRONIC sjálfskiptingu. Allar útfærslur GLS verða í boði með 4MATIC aldrifskerfinu frá Mercedes-Benz auk 'Dynamic Select' kerfisins, sem gerir ökumanni kleift að velja á milli fimm aksturskerfa.

Stikkorð: Mercedes Benz  • Bílar  • GLS