*

Bílar 3. janúar 2020

Nýr Honda e forsýndur

Forsýning nýja rafbílsins frá Honda verður einungis um skamma hríð, en á morgun verður einnig stór bílasýning Toyota.

Róbert Róbertsson

Nýr Honda e rafbíll verður forsýndur í nýjum Honda sal Bílaumboðsins Öskju að Fosshálsi 1 á morgun laugardag. Þar verður einnig ofursportbíllinn Honda NSX til sýnis. Þá verður fyrsta stóra bílasýning ársins hjá Toyota á morgun þar sem ný útgáfa af hinum sportlega Toyota C-HR Hybrid verður sýnd.

Honda e rafbíllinn verður aðeins til sýnis í stuttan tíma þar sem um forsýningu er að ræða. Forsala á Honda e hefst á sama tíma þ.e. frá og með morgundeginum og hægt verður þá að forpanta bílinn. Það verður mikið um dýrðir á Fosshálsinum 4. janúar því ofursportbíllinn Honda NSX verður einnig til sýnis á sýningunni.

Beðið hefur verið eftir nýjum Honda e með mikilli eftirvæntingu síðan bíllinn var frumsýndur í framleiðsluúgáfu á bílasýningunni í Frankfurt í haust. Honda e er því nýjasta viðbótin í úrval rafbíla á Íslandi. Honda e er 154 hestafla rafbíll og togið 315 Nm sem skilar tafarlausri og þýðri hröðun án gírskiptinga.

Akstursdrægi Honda e er allt að 220 km. Bíllinn er hlaðinn í gegnum aðgengilegt hleðsluinntak á vélarhlífinni. Búnaðinum fylgir LED mælir sem sýnir á einfaldan hátt hleðslustöðu rafgeymisins. Hægt er að ná 80% hleðslu inn á rafhlöðu á 30 mínútum. Honda e er mjög tæknivæddur og snjall bíll. Hægt er að eiga samskipti við hann með My Honda+ appinu í gegnum snjallsíma.

Stafrænt mælaborð í fullri breidd heldur ökumanni upplýstum, býður upp á afþreyingu og tengir ökumann við það sem hann kann best að meta. Það veitir honum fulla stjórn yfir fjölda snjallaðgerða og þjónustuþátta. Honda e er búinn háskerpumyndavélum sem leysa hliðarspegla af hólmi. Með þessu eykst yfirsýn og það dregur úr heildarbreidd bílsins. Hurðarhúnarnir falla sléttir að hurðunum og skjótast fram þegar þarf að opna þær. Framljós, myndavélar og radar eru samþætt í einni heildstæðri hönnun.

Það verður vatn á myllu bílaáhugafólks að koma í Honda salinn 4. janúar því þá verður einnig hinn nýi og magnaði ofursportbíll NSX frumsýndur. NSX er tengiltvinnbíll með 3,5 lítra V6 vél með tveimur forþjöppum og þremur rafmótorum. Þetta er gríðarlega aflmikill sportbíll. Tengiltvinnvélin skilar bílnum 573 hestöflum og hann er aðeins 3 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraðinn er 319 km/klst.

Ný útgáfa af Toyota C-HR Hybrid

Fyrsta stóra bílasýning ársins hjá Toyota verður haldin á morgun kl. 12 – 16. Á sýningunni verður ný útgáfa af hinum sportlega Toyota C-HR Hybrid sýnd í fyrsta sinn en C-HR er nú fáanlegur með 2.0 vél auk 1.8 vélarinnar.  Fyrir jeppaunnendur verður margt að sjá á laugardag  en þá hefst sala á þremur nýjum aukahlutapökkum með bæði Land Cruiser og Hilux.

Toyota tryggingar verða kynntar á sýningunni en frá og með ármótum geta viðskiptavinir Toyota keypt Toyota tryggingar, sem eru vátryggðar af TM, um leið og fest eru kaup á nýjum eða notuðum bíl hjá viðurkenndum söluaðilum Toyota.

Toyota tryggingar hafa það umfram aðrar tryggingar að afnot af bílaleigubíl fylgja allan viðgerðartímann í kaskótjónum, viðurkenndir varahlutir frá Toyota verða notaðir í viðgerðinni og bíllinn er þrifinn að utan að viðgerð lokinni.

Sýninging á morgun verður hjá viðurkenndum söluaðilum Toyota í Kauptúni, Reykjanesbæ, á Akureyri og Selfossi.

Stikkorð: Toyota  • Honda  • tryggingar  • rafbíll