*

Bílar 21. desember 2017

Nýr Honda sportbíll

Honda Sports EV, nýr sportbíll frá japanska bílaframleiðandanum, var frumsýndur á bílasýningunni í Tókýó á dögunum.

Bíllinn hefur vakið mikla athygli enda sker hann sig sannarlega úr hvað varðar útlitið. Það er svolítill retro stíll yfir þessum netta tveggja sæta sportbíl. Hann á að vera rafdrifinn og með drægni upp á 250 km að sögn Honda. Bíllinn er nokkuð líkur Urban EV Concept sem Honda sýndi á bílasýningunni í Frankfurt í haust og notar að miklu leyti sömu tækni m.a. hvað varðar batteríin. Honda Sports EV er samt ekki síður athyglisverður í útliti en Urban EV Concept.

Sportbíllinn er enn á hugmyndastigi og alveg óvíst hvort hann fer á markað alla vega í þessari mynd þótt það væri óneitanlega svolítið skemmtilegt að fá þennan á göturnar. Að sögn Honda er bílaframleiðandinn að skoða viðbrögðin við bílnum og hönnun hans áður en tekin verður ákvörðun um framtíð hans.