*

Tölvur & tækni 12. september 2012

Nýr iPhone verður tvöfalt hraðvirkari

Nýr snjallsími Apple er hlaðinn tækninýjungum. Hann verður stærri en fyrri gerðir með endingarbetri rafhlöðu.

Nýi iPhone-síminn frá Apple er léttari og 30% þynnri en sá iPhone-sími sem nú er á markaðnum, að því er fram kemur á kynningu á Apple sem nú stendur yfir í San Francisco. Síminn keyrir á nýju stýrikerfi IOS 6. Ekki hefur verið greint frá því hvenær síminn kemur á markað. 

Nýi síminn er hlaðinn nýjungum, sem sumar hverjar hafi fjölmiðlar fjallað um áður.

Síminn er m.a. með stærri skjá (4 tommur samanborið við 3,5 tommur í iPhone 4) sem ræður við fleiri liti. A6-örgjörvinn sem knýr símann áfram er um tvöfalt hraðvirkari en A5-örgjörvinn í iPhone 4. Hann skilar því að forrit símans opnast á bilinu 1,7 til 2,1-falt meiri hraða en áður.

Rafhlaða símans endist sömuleiðis lengur en í fyrri gerðum. 

Myndavélin aftan á símanum er svipuð og í iPhone 4. Hún er með 8 MP upplausn. Nýjungin felst hins vegar í því að myndavélin fram á símanum ræður við háskerpu sem nýtist þegar símanotendur eða aðrir sem eiga tækjabúnað frá Apple eiga samskipti sín á milli með forritinu Facetime.

 

Stikkorð: iPhone 5