*

Bílar 25. september 2012

Nýr Kia Carens kynntur í París

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Kia Motors kynnir nýjan bíl á bílasýningunni í París í vikunni.

Róbert Róbertsson

Kia Motors mun kynna nýjan Kia Carens á alþjóðlegu bílasýningunni í París sem hefst 27. september. Þetta er þriðja kynslóð bílsins en bíllinn er mikið breyttur og raunar byggður á nýjum grunni miðað við forverana. Suður-kóreski bílaframleiðandinn hefur á undanförnum tveimur árum sent frá sér hvern endurhannaðan bílinn á fætur öðrum sem hannaðir eru af Þjóðverjanum Peter Schreyer og tekist vel til.

Hinn nýi Carens á að marka tímamót fyrir Kia í flokki stærri fjölskyldubíla eða svokallaðra margnotabíla sem kallaðir eru MPV á ensku. Carens er stór og rúmgóður 7 manna bill með mikið farangursrými. 

Carens verður í boði með eyðslugrönnum og umhverfismildum dísilvélum þannig að um hagkvæman fjölskyldubíl er að ræða.

,,Þessi nýi bíll er framleiddur og hannaður með þarfir fjölskyldunnar í huga þannig að hann nýtist vel fyrir ferðalög og öll áhugamálin. Framleiðslan á bílnum markar stórt skref fram á við fyrir Kia og við væntum mikils af honum,” segir Hyoung-Keun Lee, aðstoðarforstjóri Kia Motors. Ekki er enn ljóst hvaða vélarstærðir verða í boði en það verður upplýst við frumsýningu bílsins.

Stikkorð: Kia Motors