*

Bílar 10. október 2018

Nýr Kia Ceed Sportswagon kynntur til leiks

Sportswagon er með enn meira farangursrými en hefðbundinn Ceed eða 625 lítrar sem er heilum 97 lítrum meira en forverinn.

Nýr Kia Ceed Sportswagon verður kynntur til leiks hjá Bílaumboðinu Öskju nk. laugardag kl. 12-16. Sportswagon er í langbaksútfærslu en hinn hefðbundni Ceed í hlaðbaksútfærslu en hann var kosinn Bíll ársins í flokki minni fólksbíla hjá Bandalagi íslenskra bílablaðamanna á dögunum. 

Nýr Kia Ceed Sportswagon er með kraftmiklum og sportlegum línum. Hann hefur breyst mikið útliti að innan sem utan og þá hefur ýmsum tækninýjungum verið bætt við bílinn. Bíllinn er aðeins breiðari og lægri en áður og tígrisnefið, sem er einkennismerki Kia bíla, er breiðara á framgrillinu en í forveranum. Ný LED dagljós með kristöllum gefa bílnum fallegan blæ að framan. Innanrýmið er fallega hannað og í talsvert breyttri mynd en áður. Tæknivæddur snertiskjár býður upp á það helsta varðandi afþreyingu og er auk þess tengdur bakkmyndavél og leiðsögukerfi. 

Sportswagon er með enn meira farangursrými en hefðbundinn Ceed eða 625 lítrar sem er heilum 97 lítrum meira en forverinn. Þetta er eitt mesta farangursrými sem í boði er í bíl í þessum stærðarflokki. Bíllinn fæst einnig með sjálfvirkum afturhlera sem eykur þægindin. Nýr Kia Ceed Sportwagon verður í boði með tveimur bensínvélum. Annars vegar er ný 1,4 lítra T-GDI bensínvél sem skilar 140 hestöflum og hins vegar 1,0 lítra bensínvél sem skilar 120 hestöflum. Sportswagon verður búinn nýjustu aksturs- og öryggiskerfum frá Kia.