*

Bílar 14. ágúst 2019

Nýr Kia e-Soul rafbíll

Nýr Kia e-Soul, verður frumsýndur í Kia húsinu að Krókhálsi 13 næstkomandi laugardag kl. 12-16.

Nýr Kia e-Soul, verður frumsýndur í Kia húsinu að Krókhálsi 13 nk. laugardag kl. 12-16. Mikil eftirvænting hefur ríkt eftir komu bílsins eftir að hann var fyrst kynntur á alþjóðlegu bílasýningunni í LA í vetur.

Ný kynslóð e-Soul er mjög breytt í hönnun sem og aksturseiginleikum frá núverandi Soul EV. Eins og forverinn er e-Soul nettur fjölnotabíll og er hábyggðari en fólksbílar af svipaðri stærð sem þýðir þægilegt er að ganga um hann þar sem sætin eru há og útsýni gott. 

Nýr e-Soul er aflmeiri og langdrægari en forverinn auk þess sem aksturseiginleikar bílsins hafa verið bættir enn frekar. Rafmótorinn skilar bílnum 204 hestöflum og hann er aðeins 7,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Drægnin er mikil eða alls 452 km miðað við hinn nýja WLTP staðal. 

 Forverinn Kia Soul EV hefur notið mikilla vinsælda um allan heim síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir fimm árum. Suður-kóreski bílaframleiðandinn  bindur miklar vonir við að arftaki hans e-Soul verði enn vinsælli enda býður nýi bíllinn upp á meiri kraft og aukna drægni sem og enn betri aksturseiginleika.