*

Bílar 9. nóvember 2012

Nýr Kia Sorento mættur til leiks

Nýi jeppinn hefur breyst talsvert í útliti og hönnun og hafa aksturseiginleikar verið bættir.

Róbert Róbertsson

Ný og endurbætt útgáfa af Kia Sorento er komin á markað og verður frumsýnd hjá Bílaumboðinu Öskju á morgun laugardag. Ekki er um að ræða nýja kynslóð þessa vinsæla jeppa heldur svokallaða andlitslyftingu.

Nýr Kia Sorento hefur þó breyst talsvert í útliti og hönnun og þá hafa aksturseiginleikar jeppans verið bættir og búnaður aukinn til muna. Þessi fjórhjóladrifni jeppi skartar nýjum framenda þar sem stuðari, grill og Led ljós gefa jeppanum voldugan svip. Þá er afturhluti bílsins einnig talsvert breyttur með laglega hönnuðum afturljósum. Þá er innanrýmið mikið breytt og smart LCD mælaborð leikur þar stórt hlutverk.

Jeppinn er með nýjum undirvagni sem veitir betri hljóðeinangrun og fjöðrunar- og bremsubúnaður hefur verið bættur enn frekar. Kia Sorento verður í boði með 2,2 lítra dísilvél sem er mjög öflug og skilar 197 hestöflum og togið er 436 NM. Eldsneytiseyðslan á nýjum Sorento er frá 6,7 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri miðað við tölur frá framleiðanda.

Sorento verður boðinn í þremur útfærslum og er verðið frá kr. 7.190.777. Jeppinn verður fáanlegur í Premium útfærslu sem er m.a.með panorama glerþaki, leiðsögukerfi með 7“ skjá, hita í stýri og hinu háþróaða Smart Parking assist system en þannig leggur jeppinn sjálfur í stæði. Áhugassamir geta skoðað jeppann en hann verður eins og áður segir frumsýndur í Öskju að Krókhálsi 11 á morgun laugardag kl. 12-16.

Stikkorð: Kia Sorento