*

Bílar 12. september 2018

Nýr Kia Sportage frumsýndur

Bílaumboðið Askja frumsýnir nýja og uppfærða útfærslu af hinum vinsæla sportjeppa Kia Sportage næstkomandi laugardag.

Bílaumboðið Askja frumsýnir nýja og uppfærða útfærslu af hinum vinsæla sportjeppa Kia Sportage nk. laugardag kl. 12-16.

Sportage verður fyrsti Kia bíllinn sem boðinn er með nýjum mild-hybrid búnaði sem minnkar CO2 losun um 4% samkvæmt WLTP mælingum. Þá á sérstakur SCR búnaður að draga úr NOx útblæstri frá vélinni. 

Kia Sportage býður upp á nýja 2 lítra dísilvél sem skilar 185 hestöflum. Þessi nýja vél er með mild hybrid búnaði og er hreinasta dísilvél sem Kia hefur framleitt. Í boði er einnig ný 1,6 lítra dísilvél sem skilar 136 hestöflum og leysir af hólmi eldri 1,7 lítra vélina. Báðar þessar nýju dísilvélar eru skilvirkari og aflmeiri en áður, auk þess að vera eyðslugrennri og umhverfismildari. Með nýjum Sportage verður Kia annar tveggja bílaframleiðenda í heiminum til að bjóða mild-hybrid, hybrid, plug-in hybrid og hreina rafbíla.

Nýr Sportage kemur með nokkuð breyttu útliti. Ný hönnun er á framgrillinu eða tígrisnefinu, sem er ættareinkenni Kia, og kemur mjög vel út. Nýr framstuðari og ný LED ljós gera mikið fyrir framsvipinn á bílnum. Hönnunin á nýjum Sportage var samstarfsverkefni hönnunardeilda Kia í Frankfurt, Kaliforníu og Namyang í Suður-Kóreu.

Bíllinn er 40 mm lengri og með 15 lítra meira skottpláss en áður. Sportage verður í boði með bæði fjórhjóladrifi og framhjóladrifi og í báðum tilvikum með 7 þrepa DCT sjálfskiptingu. Bíllinn er mjög tæknivæddur og í vali eru 7" og 8" snertiskjáir í innanrýminu sem er vel hannað með hágæða efnisvali og góðri uppsetningu á stjórnrofum. Hugsað er vel um ökumann og farþega í rúmgóðu innanrýni bílsins og sætin eru sérlega þægileg í nýja bílnum. Kia hefur unnið sérstaklega að því að bæta aksturseiginleika bílsins enn frekar.