*

Tölvur & tækni 18. september 2014

Nýr Kindle með ókeypis 3G

Kindle Voyage er sjöunda kynslóð Kindle lesbretta frá Amazon. Kemur út í skugga deilna netrisans við bókaútgefendur.

„Markmið okkar með Kindle er að láta tækið hverfa svo þú getir gleymt þér í heimi rithöfundarins,“ er haft eftir Jeff Bezos, stofnanda og forstjóra Amazon, í fréttatilkynningu þar sem kynntir voru til leiks tvær nýjar gerðir af Kindle lesbrettum. Sjönda kynslóð Kindle, Kindle Voyage, er þynnri og léttari en forverar hennar - aðeins 7,6 mm þunn og rúm 180 grömm að þyngd. Skjárinn hefur tekið miklum breytingum, með aukinni skerpu og meira ljósnæmi. Það sem vekur sérstaka athygli er að hægt verður að kaupa sérstaka útgáfu af lesbrettinu með ókeypis 3G þjónustu.

Amazon hefur einnig gefið út ódýrari útgáfu af Kindle með snertiskjá sem verður til sölu fyrir 79 bandaríkjadollara eða tæpar 10.000 krónur. Kindle Voyage mun aftur á móti kosta 200 bandaríkjadollara eða um 24.000 krónur. 

Í skugga deilna

Útgáfa lesbrettana kemur í skugga deilna sem Amazon hefur átt í við bókaútgefendurnar Hachette og Harper Collins sem hafa sakað netrisann um að selja rafbækur of ódýrt. Segja margir útgefendur að lágt rafbókaverð komi í veg fyrir fjölbreytta og vandaða bókaútgáfu, sérstaklega þar sem útlit er fyrir að sala rafbóka muni aukast á næstu árum á kostnað hefðbundinnar bókaútgáfu. 

Stikkorð: Jeff Bezos  • Amazon  • Kindle  • Hachette  • HarperCollins