*

Bílar 10. janúar 2014

Nýr Land Cruiser kynntur með viðhöfn

Toyota kynnir nýjan „Íslandsbíl“ á morgun. Fyrirtækið kynnir sömuleiðis til sögunnar ný bílalán.

Toyota blæs til sannkallaðrar stórsýningar nk. laugardag og stjarna sýningarinnar verður nýr Land Cruiser 150 sem oft hefur verið kallaður Íslandsbíllinn vegna mikilla vinsælda hans hér á landi. Land Cruiser kemur nú með talsverðum útlistbreytingum og ýmsum öðrum nýjungum. 

Fram kemur í tilkynningu að bíllinn er með nýtt grill og framljósasett sem nú eru hærra á bílnum og eru því í betra vari fyrir óhreinindum þegar ekið er um vegleysur. Halogenljós eru staðalbúnaður en einnig verður hægt að fá bílinn með LED aðalljósum. Að aftan er hann líka með nýjum ljósum. Nútímalegri blær er líka yfir innanrými þar sem Land Cruiser státar m.a. af 4,2 tommu litaskjá. Sætin í annarri sætaröð er hægt að fella niður til að auðvelda aðgengi að þriðju sætaröðinni.  

Þá verður Toyota Avensis Terra einnig kynntur á sérstöku tilboðsverði á sýningunni og í takmarkaðan tíma að sýningu lokinni.

Þá mun Toyota einnig kynna ný Gæðalán Toyota í samstarfi við Ergo þar sem boðin eru vaxtalaus lán fyrir 40% af verði bílsins til allt að þriggja ára. Stórsýning Toyota verður á laugardag kl. 12-16 og verður raunar haldin hjá öllum viðurkenndum söluaðilum Toyota sem eru í Reykjanesbæ, Kauptúni í Garðabæ, á Selfossi og á Akureyri.

Stikkorð: Toyota  • Toyota Landcruiser