*

Bílar 6. apríl 2018

Nýr Leaf frumsýndur

Nýjasta kynslóð Nissan Leaf verður frumsýnd á morgun en hún hefur tekið verulegum breytingum að utan sem innan.

Nýjasta kynslóð Nissan Leaf verður frumsýnd hjá BL á morgun, laugardag. Laufið var á dögunum valinn „Heimsins grænasti bíllinn á árinu“ hjá World Car Awards sem eru afar eftirsótt.

Nýr Leaf hefur tekið verulegum breytingum að utan sem innan og svipar nú mjög til annarra fjölskyldumeðlima í fólksbílalínu Nissan, svo sem, Micra, Pulsar, Qashqai og fleiri bíla. Auk þess er hann nú bæði stærri og breiðari en áður og kominn með öflugri rafmótor og langdrægari rafhlöðu. Þannig er nýr Leaf nú 150 hestöfl og aðeins rétt um 7 sekúndur í 100 km/klst. Þá hefur drægni rafhlöðunnar aukist um 128 km; fer úr 250 km í 378 km við bestu mögulegu aðstæður samkvæmt NEDC.

Nýja gerð bílsins er búin sérstökum e-Pedal orkupedala sem endurnýtir alla þá orku sem leysist úr læðingi þegar hemlað er. Þegar ökumaður lyftir fæti af orkupedalanum hægir bíllinn á sér og stöðvast án þess að ökumaður þurfi að nota bremsupedalann. Í þessum búnaði er einnig brekkuaðstoð sem sér til þess að bíllinn renni ekki afturábak þegar stöðvað er í brekku. Sérfræðingar Nissan segja að í 90% tilfella nægi að nota e-Pedal til að stöðva bílinn.

Á meðal nýjunga á tækni- og öryggisviði má nefna sjálfvirknikerfið ProPilot sem aðstoðar ökumanninn við aksturinn. Leaf Tekna er búinn ProPilot öryggisbúnaði þar sem meðal annars er að finna vegmyndavél, framradar, neyðarhemlun, blindhornsviðvörun og akreinavara með inngripi. Í ProPilot búnaðinum er einnig er að finna tæknina „leggja í stæði“.