*

Veiði 4. febrúar 2018

Nýr leigutaki í Soginu

Veiðisvæðið við Syðri Brú er nú í umsjá Rafns Vals Alfreðssonar sem oft er kenndur við Miðfjarðará.

Trausti Hafliðason

Rafn Valur Alfreðsson, sem verið hefur leigutaki Miðfjarðarár frá árinu 2009, hefur tekið við svæði Syðri Brúar í Soginu. Greint er frá þessu á Facebook-síðu Miðfjarðarár.

Syðri Brú er eitt af fáum veiðisvæðum á landinu þar sem veitt hefur verið á eina stöng og svo verður áfram. Á þessu svæði er tiltölulega nýtt veiðihús sem stendur við  bakka Sogsins. Sogið er vatnsmesta bergvatnsá landsins og ein þekktasta laxveiðiáin. Áin fellur úr Þingvallavatni og um 20 kílómetrum neðar sameinast hún Hvítá í Árnessýslu. Veiðin í Soginu hefur dalað síðustu ár. Í Viðskiptablaðinu síðasta sumar sagði Árni Baldursson, sem er með Ásgarð í Soginu á leigu, að staðan væri slæm og hann hefði miklar áhyggjur af Soginu. "Það var veitt á maðk árum saman í Soginu og í mörg ár voru flestir laxar drepnir. Þetta, auk netaveiða Veiðifélags Árnesinga, er að drepa ána. Það þarf að fara í mjög róttækar aðgerðir í Soginu."

Ótrúleg veiði í Miðfjarðará

Eins og áður sagði er Rafn Valur einnig leigutaki Miðfjarðarár en veiðin þar hefur verið ótrúleg síðustu ár.
Laxveiðin síðasta sumar var sú lakasta í þrjú ár. Heildarveiðin var mest í Ytri-Rangá en veiði á stöng var mest í Miðfjarðará. Þegar veiði á stöng í 47 ám er skoðuð kemur í ljós að hún dalaði um 17% á milli ára. Síðasta sumar veiddust að meðaltali 128 laxar á stöng í þessum ám samanborið við 155 sumarið 2016.

Eins og áður sagði var Miðfjarðará besta laxveiðiá landsins síðasta sumar miðað við veiði á stöng. Alls veiddust 418 laxar á stöng í ánni. Veiðin í Miðfjarðará hefur reyndar verið ótrúleg síðustu þrjú ár því í fyrra skilaði hún 482 löxum á stöng og 655 sumarið 2015. Ytri-Rangá var í 2. sæti síðasta sumar með 390 laxa á stöng. Nánari upplýsingar um veiðina síðasta sumar má nálgast í úttekt, sem birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um veiði í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is