*

Tölvur & tækni 3. september 2012

Nýr Lumia-sími við þröskuldinn

Finnski farsímaframleiðandinn Nokia á mikið undir því að nýjasti Lumia-síminn slái í gegn.

Nýjasti Lumia-farsíminn úr smiðju finnska fyrirtækisins Nokia kemur á markað á miðvikudag. Bæði stjórnendur Nokia og hugbúnaðarrisans Microsoft bera mikla væntingar til hans. Síminn keyrir á Windows 8-stýrikerfinu, sem er það allra nýjasta frá Microsoft. 

Tæknisíðan CNet greinir frá því að í raun muni nýi síminn og stýrikerfið skera úr um hvort Nokia nái að fóta sig á ný eftir að hafa orðið undir gegn Apple og öðrum farsímaframleiðendum á snjallsímamarkaði. CNet segir, að gangi allt eftir muni Nokia á næstu þremur árum skella iPhone-símunum frá Apple og stýrikerfi þess í þriðja sætið. Android-stýrikerfið muni eftir sem áður tróna á toppnum sem algengasta stýrikerfið í farsímum. 

Gangi þetta hins vegar ekki eftir sé allsendis óvíst hvort Nokia muni hafa það af. Rifjað er upp að Stephen Elop, forstjóri Nokia, og stjórnendur fyrirtækisins hafi lagt þróun á Symbian-stýrikerfinu á hilluna til að þróa Lumia-símana. Þeir sem þegar eru komnir á markað hafa ekki staðið undir væntingum. 

Stephen Elop, forstjóri Nokia, sem hefur unnið að því hörðum höndum að dusta rykið af frægðarsól farsímafyrirtækisins.

Stikkorð: Nokia  • Lumia