*

Bílar 19. júní 2013

Nýr lúxus sportjeppi frá Mercedes-Benz

Nýr sportjeppi er væntanlegur undir merkjum Benz á fyrri hluta næsta árs.

Róbert Róbertsson

Mercedes-Benz mun koma með nýjan lúxus sportjeppa á markað fyrri hluta árs 2014. Nýi bíllinn ber nafnið GLA en hann var fyrst kynntur sem hugmyndabíll undir sama heiti á bílasýningunni í Sjanghæ nú í sumarbyrjun. Búist er við að framleiðsluútfærsla GLA verði kynnt á bílasýningunni í Frankfurt í september nk. og bíllinn komi síðan á markað í framhaldi af sýningunni.

GLA er með flottar línur og mikið er lagt í innanrýmið eins og Mercedes-Benz er von og vísa. GLA er ætlað að keppa við lúxus sportjeppana frá Audi og BMW sem og Range Rover Evoque. Búist er við að hann verði m.a. boðinn með tveggja lítra, fjögurra strokka vél með forþjöppu sem skilar 211 hestöflum og með 7G-DCT gírkassa og 4MATIC fjórhjóladrifi. Einnig verður hann boðinn með afturhjóladrifi. Þá má fastlega gera ráð fyrir að í framhaldinu fylgi ofurútgáfan GLA45 AMG með 355 hestafla vél sem er einnig að finna í  CLA 45 AMG og A45 AMG.

Stikkorð: Mercedes Benz