*

Bílar 12. desember 2012

Nýr Maserati Quattroporte

Nýi bíllinn frá Maserati verður með 3,8 lítra V8-vél sem skilar 530 hestöflum.

Róbert Róbertsson

Nýr Maserati Quattroporte kemur fram á sjónarsviðið fljótlega á næsta ári og er eðlilega talsverð eftirvænting eftir bílnum eins og alltaf þegar Maserati kemur fram með nýjan bíl. Þetta er stór fjögurra dyra sportlegur fjölskyldubíll bíll sem verður nú 5,2 metra langur og því ætti plássið fyrir ökumann og farþega að vera mjög gott. Frangursrýmið er einnig afar rúmgott. 

Bíllinn er mjög mikið breyttur frá fyrri kynslóð sem er að verða áratuga gömul.

Quattroporte er hannaður af Marco Tencone, sá hinn sami og hannaði Alfa 4C. Quattroporte verður gríðarlega öflugur bíll, með nýrri 3,8 lítra V8 vél sem skilar alls 530 hestöflum. Sjálfskiptingin er glæný átta þrepa og mögulegt verður að fá bílinn fjórhjóladrifinn. Lúxusinn að innan verður mikill eins og og búast má við í bíl frá Maserati.

Gerði vélina undir Schumacher

Verkfræðingurinn Paolo Martinelli er ábyrgur fyrir vélinni í bílnum en hann var líka ábyrgur fyrir V10 ofurvélinni í Ferrari kappaksturrsbíl Michael Schumacher sem tryggði honum heimsmeistaratitilinn. Hann ætti því alveg að standa undir væntingum og ábyrgð.

„Hljóðið í vélinni verður einstakt eins og krafturinn,“ segir Martinelli. Verðið á Quattroporte er áætlað í kringum 20 milljónir en bíllinn kemur á markað snemma á næsta ári. 

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um sögu Maserati-bílsins á dögunum og birti myndir sem sýna þróun hans í gegnum árin.