*

Bílar 24. ágúst 2018

Nýr Mazda 6 frumsýndur

Nýr Mazda 6 hefur verið endurhannaður að utan sem innan. Bíllinn verður frumsýndur í þessari breyttu mynd hjá Brimborg næstkomandi laugardag kl. 12-16.

Það verður nóg um að vera fyrir bílaáhugamenn á morgun, laugardag því þá verða þrír nýir bílar frumsýndir í höfuðborginni. Um er að ræða nýja Mazda 6, Hyundai i20 og Kia Ceed.

Nýr Mazda 6 hefur verið endurhannaður að utan sem innan. Bíllinn verður frumsýndur í þessari breyttu mynd hjá Brimborg nk. laugardag kl. 12-16. Hönnun á nýjum Mazda 6 byggir á Kodo hugmyndafræði Mazda sem innblásin er af hreyfingum, krafti og lipurð blettatígurs eins og þeir lýsa því sjálfir hjá japanska bílaframleiðandanum. Hönnuðir Mazda segjast leggja hjarta og sál í form og þægindi til að búa til yfirvegað og afslappandi andrúmsloft fyrir ökumann og farþega. Með háþróaðri i-Activsense árekstrarvarnartækni Mazda hefur öryggi ökumanns og farþega verið aukið. Háþróaðir skynjarar, laser- og radartækni aðstoða ökumanninn við að hindra alvarlega árekstra og slys meðal annars með aðstoð blindpunkts- og veglínuskynjunar. 

Í öryggisbúnaði bílsins má einnig nefna G-VECTORING akstursstjórn sem er afar fullkomið kerfi sem hannað var í anda fornrar japanskrar hugmyndafræði, Jinba Ittai. Með því er markmiðið að ökumaður og bíll verði að fullu samstíga. Kerfið á að skynja fyrirætlanir ökumannsins eins og hesturinn skynjar knapann. Kerfi bílsins undirbúa hann fyrir akstur inn í og út úr beygjum með því að að flytja þyngdarpunkt og breyta afli eftir aðstæðum. Nýr Mazda 6 verður frumsýndur hjá Brimborg á morgun, laugardag, klukkan 12-16.

Hyundai i20 með 120 hestafla vél

Nýr Hyundai i20 státar af nýrri, ferskri hönnun og eftirtektarverðu, tvítóna þaki. Nýir stuðarar, stallað Hyundai grill og aflíðandi aðalljós með LED eiginleikum setja sterkan svip á bílinn. Þótt i20 sé ekki stór bíll þá leynir hann á sér því farangursrýmið getur stækkað úr 326 lítrum í 1.024 lítra með því að fella aftursætin niður. 

Nýr i20 er með 1,0 lítra, 120 hestafla T-DGI vél og togið er 171 Nm. Hann er fáanlegur með sjö gíra, tveggja kúplinga beinskiptingu. 

Bíllinn er vel búinn nýjustu tækninýjungum m.a. nýja Hyundai SmartSense akstursaðstoðarkerfinu sem veitir aukið öryggi. Bíllinn er auk þess búinn FCA árekstraröryggiskerfi, athyglisviðvörun og akreinastýringu. Þá er bíllinn með fínustu tengimöguleika fyrir sjö tommu snertiskjá í innanrýminu. Nýr i20 verður frumsýndur hjá Hyundai umboðinu á morgun, laugardag, klukkan 12-16. 

Þá verður sömuleiðis nýr Kia Ceed frumsýndur hjá Öskju á morgun klukkan 12-16 en fjallað var um Kia Ceed hér á vb.is fyrr í vikunni.

Stikkorð: 6  • Mazda