*

Bílar 4. september 2012

Nýr Mazda 6 kemur fram á sjónarsviðið - myndband

Nýr bíll undir merkjum Mazda var kynntur í Moskvu um helgina. Bíllinn keyrir á nýrri spartækni.

Ný kynslóð af Mazda 6 var frumsýnd á bílasýningu í Moskvu um helgina en það hefur hingað til þótt afar óvenjuleg staðsetning fyrir frumsýningu bíls.

Skammt er síðan fyrsta myndin af nýjasta Mazda 6 bílnum kom á netið og má segja að hún hafi vakið mikla eftirvæntingu þar sem bíllinn þótti mjög laglegur. Japanski bílaframleiðandinn nær oft að koma á óvart með nýstárlegri hönnun en Mazda þykir ráða yfir afar færum hönnuðum sem jafnan tekst að sameina japönsk gildi og vestræna formfegurð í einum og sama bílnum. Nýi Mazda 6 er hannaður í Kodo hönnunarmálinu, líkt og sportjeppinn Mazda CX-5 sem var fyrst prófaður af bílablaðamönnum í Hvalfirðinum haustið 2011. 

Mazda 6 mun að sjálfsögðu fá hinar nýju Skyactive-vélar sem eru vel heppnaðar og eyðslugrannar. Í boði verður tveggja lítra bensínvél sem skilar 148 hestöflum og 2,5 lítra, 189 hestafla vél, en stærri vélin er sérstaklega ætluð Bandaríkjamarkaði. Hann verður einnig í boði með 2,0 l. og 165 hestafla dísilvélinni sem einnig má finna í CX-5 jepplingnum og Mazda 3 bílnum.

Þá setti Mazda einnig á Youtube kynningarmyndband með bílnum sem er æði nýstárlegt, með strengjadúett sem flytur lagið All Day and All of the Night með The Kinks. Það má reyndar segja að þessi flutningur á laginu sé í takt við bílinn því hann býður fágað útlit í bland við sportlega aksturseiginleika. Hin byltingakennda Skyactiv spartækni sem fjallað hefur verið um hér á vefnum mun fást í Mazda 6.

Stikkorð: Mazda 6