*

Bílar 15. maí 2013

Nýr Mercedes Benz S frumsýndur

Framleiðandinn segir nýtt flaggskip fullkomnasta fólksbíl sem framleiddur hefur verið.

Nýtt flaggskip frá Mercedes Benz var frumsýnt fyrir um klukkutímma í Hamburg í Þýskalandi. Minnti frumsýningin heldur á opnun Ólympíuleikanna en frumsýningu á bíl.

Bílaframleiðandinn í Stuttgart hefur ætíð kynnt margar nýjungar við frumsýningu á S bílnum og er engin undantekning á nú. Má þar nefna að hægt er að stjórna bílnum að miklu leyti með farsímanum (þó ekki keyra hann).

Bílinn er örlítið stærri en forverinn í grunngerði, 2,8 cm breiðari, 2,5 cm lægri og 2 cm lengri.

Vélarnar sem eru í boði í bílnum er S350 með 3 lítra V6 díeselvél með túrbínu sem skilar 255 hestöflum, S400 með 302 hestafla 3,5 lítra V6 tvinnvél (hybrid) og S500 með 4,7 lítra bensínvél sem skilar 449 hestöflum. 

Það eru venjulega engar byltingar í útliti flaggskipsins frá Stuttgart. Á því er engin breyting.

Grillið er enn stærra og vígalegra en á forveranum.

Afturendinn, rétt eins og bíllinn allur, er sportlegri.

Umfjöllun í Bílum, fylgiblaði Viðskiptablaðsins

Ítarleg umfjöllun var um búnað nýja S bílsins í síðasta tölublaði Bíla, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Þar sagði m.a.:

Bílinn verður einhver tæknivæddasti fólksbíll sem framleiddur hefur verið. Meðal útbúnaðar í bílnum eru 26 skynjarar allan hringinn á bílnum sem senda boð til þriggja tölva. Tölvurnar taka fram fyrir hendur bílstjórans í öryggisskyni, ef hann vill. Bíllinn hemlar sjálfkrafa þegar skynjararnir nema gangandi vegfarendur eða bíla.

Þeir stilla hraðann í samræmi við umferðarhraða og halda honum á akreininni ef bílstjórinn dottar eða sofnar við aksturinn. Einnig getur bíllinn lesið umferðarskilti og varað ökumann bíls sem er við það að aka aftan á S bílinn við með blikkljósum. Margt af þessu verður í boði sem aukabúnaður í öðrum gerðum frá Mercedes Benz.

 Lítið hefur verið látið uppi um ytra útlit bílsins og hefur því verið haldið leyndu. Talið er að bíllinn verði boðinn í þremur stærðum og verði sú stærsta svipuð Maybach 62. Mikil áhersla við hönnun bílsins er lögð á kaupendur sem eru með bílstjóra, sérstaklega í Asíu.

Eftir að ákveðið var að hætta framleiðslu á Maybach bílnum hefur verið lögð gríðarleg áhersla á að S bíllinn verði fremstur meðal jafningja.Bílablaðamönnum hefur boðistað skoða S bílinn að innan. Af skrifum þeirra að dæma er íburðurinn, öryggið og þægindin mun meiri en í eldri gerð.

Má nefna að það tók þrjú ár að þróa loftpúða fyrir farþega í aftursæti. Púðinn kemur í veg fyrir að farþeginn renni undan bílbeltinu ef hann hefur hallað sætinu til sér til þæginda. Segja blaðamenn að nánast sé hægt að leggja sætið alveg þannig að farþeginn sé í láréttri stellingu.

Aftursætin eru búin fullkomnasta nuddi sem völ er á í fólksbíl. Í sætinu eru 14 nuddpúðar og hægt verður að velja sex mismunandi nudd. Það sem vekur mesta athygli í bílnum er sérstakt ilmefnakerfi. Kerfið sprautar ilmvatni í gegnum miðstöðvarkerfið.

Hægt er að velja á milli fjögurra mismunandi tegunda af ilmi, m.a. íþróttailm og næturlífsilm.

Stikkorð: Mercedes Benz S