*

Bílar 4. mars 2015

Nýr Mondeo lofar góðu

Nýr Ford Mondeo verður frumsýndur hjá Brimborg næstkomandi laugardag.

Róbert Róbertsson

Ný kynslóð Ford Mondeo hefur breyst mikið í hönnun bæði að innan sem utan. Nýja grillið er voldugt og straumlínulaga ljósin gefa bílnum laglega ásýnd. Hönnunin á innréttingu er ný og vandað er til verka.

Nýr Ford Mondeo er í boði með sparneytnum bensín- eða dísilvélum. Bensínvélarnar eyða frá einungis 5,8 l/100 km og losun koltvísýrings er frá aðeins 134 g/km samkævmt upplýsingum frá framleiðanda enda eru þær byggðar á hinni margverðlaunuðu EcoBoost tækni. Dísilvélarnar eyða frá einungis 4,4 l/100 km og er losun koltvísýrings frá aðeins 115 g/km. Vélarnar búa yfir Auto-Start-Stop búnaði og standast einnig ströngustu kröfur Euro 6 losunarstaðlanna. Ný vélatækni Ford hjálpar við að draga úr rekstrarkostnaði og losun en skilar á sama tíma krafti og góðum afköstum. Mondeo býr nú yfir endurbættri fjöðrun sem framleiðandinn segir að skili enn betri aksturseiginleikum og hljóðlátara innra rými en áður.

Ford Mondeo er vel búinn öryggisbúnaði m.a. árekstravörn (Active City Stop) sem er staðalbúnaður. Árekstravörnin fylgist með því að ökumaður sé í hæfilegri fjarlægð frá bílnum á undan og hemlar sjálfkrafa sé hætta á aftanákeyrslu. Ford býður nú í fyrsta skipti í Evrópu öryggispúða í sætisbeltum í aftursætum. Inn í öryggisbeltinu eru öryggispúðar sem blása út við árekstur og veita þannig enn betri vörn. Þessi búnaður er fáanlegur sem aukabúnaður.

Bíllinn kemur með Dynamic LED aðalljósum sem er nýjung frá Ford. Þau hreyfast í takt við akstursstefnu bílsins og hjálpa þannig ökumanni að sjá hvað er framundan í beygjum. Þau skynja líka umferð á móti og taka því háuljósin af ef á þarf að halda og setja þau síðan á aftur þegar bíllinn sem mætt var er kominn fram hjá. Á gatnamótum þá lýsa þau sérstaklega í þá átt sem stefnuljósið gefur til kynna að hafi verið valin. Nýr Ford Mondeo verður frumsýndur hjá Brimborg nk. laugardag milli kl. 12-16.